Steinunn Ólína byrjuð að safna undirskriftum

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Ljósmynd/Þjóðleikhúsið

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona hefur stofnað meðmælasöfnun fyrir forsetaframboð 2024 á island.is. Hún hefur þó ekki formlega lýst yfir framboði sínu. 

Á dögunum sagðist hún vera al­var­lega að hug­leiða að gefa kost á sér til embætt­is for­seta Íslands af full­um heil­ind­um. Þá sagði hún vega þyngst hvatn­ing bláókunn­ugs fólks úr röðum al­menn­ings frá ára­mót­um, fólki sem finnst það þekkja hana, veit hvar það hef­ur hana, hef­ur lesið það sem hún hef­ur skrifað um sam­fé­lags­mál og veit að hún hræðist ekki mót­læti.

Ekki um hefndarframboð að ræða

Vakti það athygli á dögunum þegar hún greindi frá því á facebook-síðu sinni að hún hygðist bjóða sig fram ef Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra ákveður að gefa kost á sér til sama embætt­is. Nokkrum dögum seinna áréttaði hún að hún hyggði ekki á hefndarframboð. 

„Einhverjir misskildu mig svo á páskadag að ég hyggði á einskonar hefndarframboð, ekkert slíkt vakir fyrir mér, “ segir hún í stöðuuppfærslu á Facebook. 

Þá er síðan steinunnolina.is virk en þar eru engar upplýsingar um mögulegt framboð heldur einungis mynd af Steinunni. 

Jón Gnarr tilkynnti fyrr í kvöld að hann ætlaði að bjóða sig fram. Eins og er hafa 61 stofnað til meðmælasöfnunar á island.is. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert