Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona hefur stofnað meðmælasöfnun fyrir forsetaframboð 2024 á island.is. Hún hefur þó ekki formlega lýst yfir framboði sínu.
Á dögunum sagðist hún vera alvarlega að hugleiða að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands af fullum heilindum. Þá sagði hún vega þyngst hvatning bláókunnugs fólks úr röðum almennings frá áramótum, fólki sem finnst það þekkja hana, veit hvar það hefur hana, hefur lesið það sem hún hefur skrifað um samfélagsmál og veit að hún hræðist ekki mótlæti.
Vakti það athygli á dögunum þegar hún greindi frá því á facebook-síðu sinni að hún hygðist bjóða sig fram ef Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ákveður að gefa kost á sér til sama embættis. Nokkrum dögum seinna áréttaði hún að hún hyggði ekki á hefndarframboð.
„Einhverjir misskildu mig svo á páskadag að ég hyggði á einskonar hefndarframboð, ekkert slíkt vakir fyrir mér, “ segir hún í stöðuuppfærslu á Facebook.
Þá er síðan steinunnolina.is virk en þar eru engar upplýsingar um mögulegt framboð heldur einungis mynd af Steinunni.
Jón Gnarr tilkynnti fyrr í kvöld að hann ætlaði að bjóða sig fram. Eins og er hafa 61 stofnað til meðmælasöfnunar á island.is.