Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi spyr hvernig forseti geti tekið hlutlægar ákvarðanir ef hann kemur úr röðum ríkisstjórnarinnar. Vísar hann þar í mögulegt forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Hvernig tekur þú í mögulegt framboð Katrínar?
„Ef að svo verður þá verður það bara virkilega skemmtilegt. Þetta verður enn skemmtilegri lýðræðisveisla, þó að það sé náttúrulega nokkuð athyglisvert. Ef að svo verður að sitjandi forsætisráðherra sækist eftir því að verða forseti þá verður það í fyrsta skiptið sem það gerist í lýðveldissögunni,“ segir Baldur í samtali við mbl.is.
Spurður hvort að honum þyki eðlilegt að forsætisráðherra, sem fer fremst fyrir framkvæmdavaldinu, íhugi nú að fara í forsetaframboð segir Baldur:
„Það er að minnsta kosti mjög vandmeðfarið og mjög sérstakt, einfaldlega bara út frá því að - að mínu mati - þá má forseti aldrei vera meðvirkur gagnvart ríkisstjórn hvers tíma eða ráðandi valdöflum í samfélaginu, vegna þess að valdsvið forsetans er svo víðfeðmt og mikilvægt,“ segir Baldur.
Hann segir að hlutverk forsetans sé ekki einungis að samþykkja lög frá Alþingi. Nefnir sem dæmi að það geti komið til stjórnarkreppu á miðju kjörtímabili og að forsætisráðherra biðji þá forseta um heimild til þingrofs.
„Þá er svolítið vandmeðfarið ef forsetinn kemur úr röðum ríkisstjórnarinnar,“ segir Baldur.
Spurður hvort hann sé að ýja að því að Katrín sé vanhæf segir Baldur:
„Maður bara spyr, hvernig getur sá forseti, ef hann kemur úr röðum ríkisstjórnarinnar, tekið óhlutdrægar ákvarðanir. Ákvörðun sem á að byggjast á heildarhagsmunum þjóðarinnar frekar en einhverjum pólitískum klækjabrögðum. Maður bara veltir því fyrir sér.“
Í viðtali Baldurs hjá Samstöðinni sagði Baldur um mögulegt forsetaframboð Katrínar:
„Þetta snýst orðið um eitthvað annað en málefnin eða stöðugleika eða hagsmuni þjóðarinnar. Þetta snýst orðið um eitthvað annað.“
Hvað ertu að segja að þetta snúist um hjá henni?
„Er ekki bara best að spyrja hana?“ segir Baldur.
Hann kveðst hafa ákveðið það strax í upphafi að það yrðu nokkrir hlutir sem yrðu mikilvægir fyrir honum. Það væri að hafa málefnalegan grundvöll og að það væri breiður stuðningshópur. Þá ætti það ekki skipta mála hvaða fólk myndi bjóða sig fram né hvað þeir væru að segja.
„Ég ætla bara að halda þeim málum á lofti sem ég hef talað fyrir og bjóða upp á þann valkost. Þess vegna fagna ég fleiri framboðum og meiri flóru í forsetaframboðskjörinu. Við eigum ekki að gera lítið úr forsetaframbjóðendum sem eru að koma fram heldur fagna þeim. Þetta er lýðræðisveisla.“
Að lokum nefnir hann að hann hafi gaman að því að setja upp „stjórnmálafræðigleraugun“ og það sé sérstaklega freistandi á stundum sem þessum.