Samfylkingin hlyti flest atkvæði ef gengið yrði til Alþingiskosninga í dag. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup um fylgi flokkanna á Alþingi.
RÚV greinir frá.
Ríkisstjórnarflokkarnir þrír, Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkur og Vinstri grænir myndu missa meirihlutann ef gengið yrði til kosninga í dag.
18,2% myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, 7,3% Framsóknarflokk og 5,6% myndu kjósa Vinstri græna.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist því 33% og myndi hún því ekki halda velli.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins yrðu tólf en í síðustu kosningum voru 16 kjörnir á þing fyrir flokkinn. Þingmönnum Framsóknar myndi fækka úr þrettán í fjóra og Vinstri græn myndu fá þrjá menn inn á þing, en nú eru þeir átta. Stjórnarflokkarnir yrðu þá samanlagt með 19 þingmenn, en eru núna með 37.
Rúmlega 30% kjósenda myndi kjósa Samfylkinguna. Fylgi flokksins eykst milli kannana en í febrúar sögðu 28,2% svarenda að þeir myndu kjósa Samfylkinguna. Flokkurinn myndi þá fá 21 þingmann, og ekki yrði hægt að mynda tveggja eða þriggja flokka stjórn án aðkomu Samfylkingarinnar.
Miðflokkurinn mælist þriðji stærsti flokkurinn, á eftir Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum, með 13% fylgi eða tíu þingmenn.
Samkvæmt niðurstöðunum myndu Píratar fá fimm þingmenn og Framsókn, Viðreisn og Flokkur fólksins fjóra þingmenn hvor. Flokkarnir mælast með sex til átta prósenta fylgi.