Fjölmennur hópur blaðamanna, ljósmyndara og tökumanna bíður núna í anddyrinu í Umbru og bíður þess að ríkisstjórnfundi ljúki.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun ekki gefa kost á viðtali að fundi loknum þar sem hún mun halda beint á annan fund. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hver sá fundur verður.
Ríkisstjórnarfundur hófst klukkan 8.30 og stendur enn yfir. Ekki er ljóst hvenær fundi lýkur.
Margir telja að Katrín muni biðjast lausnar eftir fundinn fyrir sig og ráðuneyti sitt, ákveði hún að fara í framboð. Munu ríkisstjórnarflokkarnir þá reyna að mynda nýja ríkisstjórn undir forsæti annars.