Meðmælalistar frambjóðenda til embættis forseta Íslands verða ekki birtir þegar framboðsfrestur rennur úr á hádegi þann 26. apríl þar sem um er að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar.
Er þetta í samræmi við framkvæmdina eins og hún hefur alltaf verið að sögn Ástríðar Jóhannesdóttur, framkvæmdastjóra Landkjörstjórnar, að því undanskildu að breyting varð á framkvæmdinni árið 2020 þegar bæði varð hægt að mæla með frambjóðendum rafrænt og á pappír.
Að undanförnu hefur töluvert verið fjallað um þann fjölda manns sem stofnað hefur til rafrænnar meðmælasöfnunar á island.is. Eins og stendur eru frambjóðendur 68 og líklegt verður að telja að fleiri muni bætast í hópinn á næstu dögum og vikum enda enn þrjár vikur þar til framboðsfrestur rennur út.
Spurð hvort þeir sem þegar hafa mælt með frambjóðanda geti skipt um skoðun, fari svo að einhver frambærilegri stígi fram, svarar Ástríður að það sé vel hægt. Leiðbeiningar þess efnis er að finna á heimasíðu rafrænu meðmælasöfnunarinnar og hafa meðmælendur allt þar til framboðsfrestur rennur út möguleika til að draga stuðning sinn til baka og mæla með öðrum, að sögn Ástríðar.
Hvað gerist ef fólk er búið að skrifa undir hjá einum á netinu og öðrum á pappír, hvaða atkvæði gildir þá?
„Hvorugt. Það er í rauninni þannig að það er einungis gilt að mæla með einum. Þegar pappírslistarnir berast til yfirferðar, þegar fólk skilar inn framboði, þá er farið yfir þá, þeir slegnir inn og þessar upplýsingar keyrðar saman við hina rafrænu söfnun,“ segir Ástríður og útskýrir að ef einhver hefur mælt með fleiri en einum þá falli hvor tveggja meðmælin úr gildi.
Spurð hvort hægt sé að draga meðmæli sín til baka ef maður hefur undirritað á pappír en vill síðan hætta við svarar Ástríður að þá verði maður að hafa samband við frambjóðandann og óska eftir því að nafn manns verði tekið af listanum. Að því loknu er hægt að mæla með einhverjum öðrum.
„Það hefur alltaf tíðkast þannig og í gegnum tíðina þá hafa þessir listar að mestu verið á pappír. Þetta er líka samkvæmt lögunum, en auðvitað er þetta aðeins erfiðara í framkvæmd enda meiri fyrirhöfn fyrir meðmælandann að gera þetta, en það er alveg hægt.“
Sé frambjóðandinn búinn að skila inn sínu framboði til landskjörstjórnar, og þar af leiðandi sínum meðmælalista, er ekki hægt að óska eftir því að vera tekinn af listanum.