„Þetta er náttúrulega stór ákvörðun fyrir Katrínu og ég vil óska henni til hamingju með að vera búin að taka þessa ákvörðun og óska henni velfarnaðar í þeirri baráttu sem framundan er.“
Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar við mbl.is þegar spurð út í forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Þá bætir hún við að það breytir því ekki að pólitíkin heldur áfram.
Spurð út í áhrif framboðsins á stjórnmálin segir Þorgerður að stjórnarflokkarnir þurfi nú að gera upp við sig hvort þeir ætli að bjóða upp á sömu kyrrstöðuna og er búin að vera í íslensku samfélagi á umliðnum misserum áfram.
„Það er miklu stærri spurning. Þeirra pólitíska verkefni er að reyna taka samfélagið frá verðbólgu og háum vöxtum inn í meiri fyrirsjáanleika og stöðugleika fyrir heimilin.“
Þá segir hún stjórnarflokkana þurfa að spyrja sig hvort þetta stjórnarsamstarf sé það sem er gifturíkast fyrir samfélagið
„Ég tel svo ekki vera. Ég hef verið á móti þessari stjórn af því mér finnst hún fela í sér stöðnunina í sjálfum sér.“
Þá bætir Þorgerður við að í ríkisstjórninni sitji fullorðið fólk sem er búið að vera lengi í pólitík. Það hljóti að átta sig á því að það kemur maður í manns stað.
Spurð hvort hún myndi vilja sjá þjóðina ganga til alþingiskosninga í haust segir Þorgerður að hún myndi gjarnan vilja kosningar.
„Það liggur ljóst fyrir að það þurfi að verða breytingar á ríkisstjórninni til þess að hér verði teknar ákvarðanir hér sem eru farsælar fyrir þjóðina og mér þætti skynsamast að það væri kosningar.“