Telur að Bjarni Jónsson verði ráðherra

Oddný telur að Bjarni Jónsson verði ráðherra.
Oddný telur að Bjarni Jónsson verði ráðherra. Samsett mynd

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, telur að Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dótt­ir fjár­málaráðherra taki við embætti for­sæt­is­ráðherra af Katrínu Jak­obs­dótt­ur, sem tilkynnti um framboð sitt til forseta í gær. Þá muni Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, koma nýr inn í ríkisstjórnina.

Oddný greinir frá þessari spá sinni á Facebook-síðu sinni. 

„Ég óska Katrínu Jakobsdóttur alls hins besta - meira um það síðar. Nú ætla ég hins vegar að taka þátt í samkvæmisleiknum,“ skrifar Oddný.

Bjarni Jónsson verði ráðherra

Oddný telur að Vinstri grænir vilji ekki að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra taki við embætti Katrínar. Þá vilji Sjálfstæðismenn ekki Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra í embættið.

„VG vill ekki að Bjarni Ben verði forsætisráðherra og Sjálfstæðismenn vilja ekki Sigurð Inga. Lausnin verður að Þórdís Kolbrún verður forsætisráðherra,“ skrifar Oddný.

Margir velta nú fyrir sér hver komi í stað Katrínar …
Margir velta nú fyrir sér hver komi í stað Katrínar í forsætisráðuneytið og hvort frekari breytingar verði gerðar á ríkisstjórninni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá telur Oddný að Sigurður Ingi taki við fjármálaráðuneytinu. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra taki við ráðuneyti Sigurðar Inga og Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, verði matvælaráðherra.

„Sigurður Ingi verður þá fjármálaráðherra. Svandís verður innviðaráðherra og þá fellur vantraust á hana sem matvælaráðherra dautt niður. Bjarni Jónsson verður matvælaráðherra. Hann verður valinn umfram Bjarkeyju vegna menntunar hans og reynslu á því sviði,“ skrifar Oddný og bætir við:

„Þetta er alla vega hugmynd til að vinna með ef stjórnarflokkarnir vilja halda út kjörtímabilið. En best væri fyrir okkur öll að kjósa sem fyrst.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert