Vill fá laun fyrir formennskuna

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir stjórn félagsins fagna …
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir stjórn félagsins fagna komu nýs framkvæmdastjóra. Ljósmynd/Aðsend

Sigríður Dögg Auðunsdóttir vill fá greitt fyrir störf sín sem formaður Blaðamannafélags Íslands (BÍ). Stjórn félagsins á eftir að taka ákvörðun um þessa tillögu Sigríðar Daggar.

„Við höfum rætt í stjórninni að þetta komi til greina, en það á eftir að ræða það formlega og taka ákvörðun um það,“ segir Sigríður Dögg í samtali við mbl.is. Stjórnin hafi tekið vel í tillögu hennar um að þiggja laun sem formaður félagsins. 

Fagna komu Freyju

Freyja Steingrímsdóttir mun taka við stöðu framkvæmdastjóra BÍ í lok maí. Hún hef­ur und­an­far­in ár starfað sem sam­skipta­stjóri BSRB. Áður vann hún á Alþingi sem aðstoðarmaður Loga Einarsson, þegar hann var formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

Sig­ríður Dögg hefur gegn starfi fram­kvæmda­stjóra síðan í janúar, en þá var Hjálm­ari Jóns­syni sagt upp störf­um. Hún segir stjórn BÍ ánægða með ráðningu Freyju.

„Stjórnin er mjög ánægð með þessa ráðningu. Freyja hefur öfluga og mikla reynslu af starfsemi stéttarfélaga, sem er mjög mikilvægt að við fáum inn á okkar skrifstofu,“ segir Sigríður Dögg um ráðninguna.

Sigríður fór í launalaust leyfi frá störfum sínum á Ríkisútvarpinu eftir að hún tók við starfi framkvæmdastjóra. Fyrir vikið hefur hún þegið laun frá BÍ. Spurð hvort hún muni halda áfram að þiggja laun frá félaginu eftir ráðningu nýs framkvæmdastjóra svarar Sigríður játandi:

„Ég gerði samkomulag við stjórn um að vera á launum fram að næsta aðalfundi. Það á bara eftir að taka ákvörðun um framhaldið.“

Mun Sigríður þiggja laun sem starfandi formaður, semji stjórnin um það á komandi aðalfundi.

Spurð hvort hún sjái fyrir þér að snúa aftur til starfa þinna hjá Ríkisútvarpinu segir Sigríður Dögg: „Ég hef ekki samið um neitt annað.“

Aðalfundur 16. apríl

Farið verður yfir helstu komandi verkefni BÍ á næsta aðalfundi 16. apríl. Þar verður endurkjör Sigríðar Daggar til embættis formanns formlega staðfest, en hún er sjálfkjörin í embættið þar sem engin mótframboð bárust.

Sigríður Dögg segir að á aðalfundinum fari fram uppgjör á starfsemi félagsins undanfarin tíu ár: „Eins og hefur komið fram þá eru fjármál félagsins til skoðunar hjá óháðum endurskoðendum og niðurstöður þeirrar endurskoðunar verða kynntar félagsmönnum á aðalfundi.“

Hún segir enn fremur að ákveðið hafi verið að skerpa á reglum félagsins hvað varðar sjóði þess:

„Það hefur verið ákveðið að skerpa á öllum reglum um úthlutanir úr sjóðum félagsins og reglugerðum sjóðanna, en það vantaði talsvert upp á að það væri með viðunandi hætti.“

„Markmiðið er að eftir aðalfundinn verðum við að mestu leyti búin að leggja línurnar um það hvernig við viljum að þetta félag starfi. Með gegnsæi og traust að leiðarljósi, þannig að öll starfsemi þessa félags verði félagsmönnum til sóma.“

Hjálmar Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands. Haraldur Jónasson/Hari

Hjálmar skilað góðu starfi 

Spurð hvort hún vísi þar til reksturs félagsins undir stjórn Hjálmars Jónssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra, segir Sigríður:

„Þetta er meira. Það er bara kominn tími til að við setjum reglur og ferla um allt sem er gert í þessu félagi. Það er bara mikilvægt þegar verið er að sýsla með annarra manna fjármuni.

Hjálmar er búinn að vera þarna í aldarfjórðung og hefur skilað góðu starfi til félagsins, en félagsmenn bera líka ábyrgð á því að gera kröfu til þess að félagið sé rekið með hætti sem við getum verið stolt af. Það er kannski bara kominn tími til þess að við færum allan rekstur félagsins í nútímalegt horf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert