Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hefur verið falið að sitja áfram sem forsætisráðherra. Lausnarbeiðni hennar hefur þó verið samþykkt af Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands.
Arftaka hennar er enn leitað og hafa ríkisstjórnarflokkarnir sannfært Guðna um að viðræður gangi vel og ljóst verði á næstunni hver taki við embættinu.
Katrín Jakobsdóttir sagðist fyrr í dag ekki geta sagt til um hver taki við embætti forsætisráðherra. Spurð hvort stjórnarsamstarfið muni halda áfram og hver taki við embætti hennar segir hún:
„Þau sitja og ræða saman. Ég vænti þess að við fáum að heyra einhverja niðurstöðu úr því. Ég er líklega ekki rétta manneskjan til að svara þessu.“
Katrín hélt að því loknu á fund forsetans og varðist frekari fregna.
Katrín biðst nú lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt þar sem Katrín er í framboði til forseta Íslands. Hún hefur verið forsætisráðherra frá árinu 2017 eða í tæplega sjö ár. Hún hefur þegar sagt af sér sem formaður Vinstri grænna.
Að fundinum loknum mun forseti ávarpa fjölmiðla.
Fréttin hefur verið uppfærð.