„Aldrei auðvelt val“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður Vinstri grænna, ræðir við blaðamann í …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður Vinstri grænna, ræðir við blaðamann í Hörpu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður Vinstri grænna og félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir hreyfingu sína ekki hafa greint á um það við Sjálfstæðisflokkinn að halda áfram ríkisstjórnarsamstarfi.

„Nei, við einfaldlega settumst yfir þetta,“ segir Guðmundur spurður út í mögulegan ágreining, að loknum blaðamannafundi formanna ríkisstjórnarflokkanna þriggja í Hörpu.

„Við erum nú ekki búin að taka mjög langan tíma í þetta. Ég held það sé mjög eðlilegt, þegar forystumaður ríkisstjórnarinnar hverfur frá, að við setjumst niður og ræðum það: Ætlum við að klára þetta?

Og það eru þrír flokkar í þessu samstarfi þannig að þeir komu að sjálfsögðu allir að þessum viðræðum. Og við vorum sammála um það að halda þessu áfram.“

Guðmundur Ingi tók af skarið

Bjarkey Ol­sen Gunn­ars­dótt­ir, þingmaður Vinstri grænna, tek­ur við mat­vælaráðuneyt­inu af Svandísi Svavarsdóttur sem verður innviðaráðherra.

Varðandi ráðherravalið – var einhver togstreita um hver ætti að fá að koma inn?

„Auðvitað hafa allir þingmenn – þeir bera von, eða alla vega flestir, von til þess að geta orðið ráðherrar. Og þetta er aldrei auðvelt val. Það var það ekki í þessu tilfelli. Ég ætla ekki að segja að ég hafi verið með offramboð af góðu fólki, en ofboðslega hæft fólk í þingflokknum hjá okkur sem ég þurfti að velja á milli. Og þetta einfaldlega var niðurstaðan.“

Tókst þú af skarið varðandi ráðherravalið, einn og sér?

„Já, það er í hlutverki formanns að leggja tillögu fyrir þingflokkinn. Og hún var samþykkt.“

Ný ríkisstjórn kynnt í Hörpu í dag.
Ný ríkisstjórn kynnt í Hörpu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nefnir stuðningspakka vegna kjarasamninga

Hvaða málum ætlið þið að fylgja helst úr hlaði?

„Við ætlum okkur að ná bæði betur utan um þau mál sem eru þegar komin inn í þingið og klára ákveðin mál sem eru nú þegar í þinginu. Svo erum við að horfa líka til næsta vetrar hvað það varðar. En ég vil nefna áherslumál hjá okkur, eins og örorkulífeyriskerfið – breytingar á því  að klára það.

Það má nefna líka að við leggjum mikla áherslu á að frumvarp um lagareldi, það er að segja fiskeldi, haldi áfram.

Svo náttúrulega að ganga hratt og örugglega til verka, til að koma stuðningspakka ríkisstjórnarinnar við kjarasamningana áfram, sem skiptir mjög miklu máli fyrir sérstaklega barnafjölskyldur og lágtekjuhópa í landinu.“

Guðmundur tekur sérstaklega fram þá nýjung sem felist í ókeypis skólamáltíðum fyrir öll börn.

Ekki sama í hvað orkan fer

Ykkur hefur verið svolítið legið á hálsi fyrir að standa á móti virkjunarframkvæmdum. Ætlið þið að breyta því eitthvað?

„Við höfum ekki breytt okkar stefnu þegar kemur að náttúruvernd eða orkuöflun. Við að sjálfsögðu stöndum við hana. Sú stefna okkar í Vinstri grænum, hún gengur út á það að við getum ráðist í orkuöflun í sátt við náttúruna. Þannig að ef að til nýrra virkjana komi, þá sé fylgt þeim ferlum sem um það gilda, meðal annars rammaáætlun. Og sérstaklega auðvitað að gæta að náttúruverndarsjónarmiðum í hvívetna, þegar kemur að því. 

En við erum ekki á móti því að virkja. Okkur er ekki sama í hvað orkan fer. Hún á auðvitað að fara til innlendra orkuskipta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert