Ríkisráðsfundur verður boðaður síðar í dag þar sem ný ríkisstjórn undir forystu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, tekur við.
Þetta herma heimildir mbl.is. Enn fremur að nýr ráðahagur um stólaskipti ráðherra verði ekki borinn undir stofnanir flokkanna þar sem litið er svo á að málefnasamningur á milli stjórnarflokkanna sé enn í gildi. Því muni ekki gerast þörf á því.
Eins og fram hefur komið er búist við því að Bjarni verði forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson verði fjármálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir taki við innviðaráðuneytinu en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fari aftur í utanríkismálin.
Ekki er ljóst hver tekur við matvælaráðuneytinu en það verður áfram á forræði Vinstri grænna. Bjarni Jónsson hefur verið orðaður við stólinn sem fulltrúi landsbyggðarinnar auk þess að hafa góða menntun til embættisins sem fiskifræðingur. En á það hefur verið bent að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaformaður þingflokksins, sem kemur úr NA-kjördæmi og Orri Páll Jóhannsson þingflokksformaður úr Reykjavík suður gætu gert tilkall til ráðherrastóls.