Rottuútköllum hefur fjölgað nokkuð að undanförnu að sögn Sólons Árnasonar meindýraeyðis hjá Dýraþjónustu Reykjavíkur. Hann hvetur fólk til að láta borgaryfirvöld vita ef það verður vart við rottur eða mýs þar sem sú þjónusta að losna við meindýrin sé í boði fyrir borgarbúa.
Hins vegar þurfi fólk að sækja sér þjónustu annars staðar ef það hyggst losna við aðra vágesti á borð við skordýr.
Sólon segir að rottuútköllum hafi fjölgað í fyrra.
„Það helgast af þvi að það er stærri stofn í fráveitukerfi Reykjavíkur en áður,“ segir Sólon.
Hann segir borgina ekki halda úti tölum yfir áætlaðar rottur í fráveitukerfi Reykjavíkur en tölur um að þær séu allt frá 13.500 upp í 50 þúsund hafa heyrst.
„Aukningin er að líkindum vegna þess að það voru aðgerðir frá árinu 1990 til ársins 2021 sem miðuðu að því að halda rottustofninum niðri. Reykjavíkurborg sá um það verkefni, en Veitur tóku við því árið 2020 eða 2021,“ segir Sólon.
Hann segir að frá þeim tíma hafi aðeins verið brugðist við útköllum en engar aðgerðir verið til þess að halda fjöldanum niðri. Var það gert á sínum tíma með því að eitra í brunnum borgarinnar.
„Áður var ákveðið teymi sem eitraði í öllum brunnum í borginni. Svo tóku Veitur við þessu. Ég þekki til þess að þeir eru að byrja á þessu en ekki í sama mæli og áður var gert,“ segir Sólon.