Mikið líf og fjör var í morgun þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar skiptust á lyklum og mátuðu sig í nýjum ráðuneytum.
Lyklaskiptin hófust snemma. Þau Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra voru mætt í stjórnarráðið klukkan hálf níu í morgun til þess að skiptast á lyklum.
Þegar þau höfðu skipst á lyklum áttu þau stutt samtal í einrúmi áður en Katrín ávarpaði fjölmiðla og rauk svo út úr ráðuneytinu á vit nýrra ævintýra.
Þegar Katrín var rokin mátaði Bjarni nýja stólinn sinn. Það var á því augnabliki sem Bjarni settist í stólinn að hæðarmunur Bjarna og Katrínar kom bersýnilega í ljós. Bjarni lét það þó ekki á sig fá, stillti stólinn og stillti sér síðan upp í myndatöku.
Því næst var komið að lyklaskiptum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Sigurður Ingi Jóhannsson tók við því embætti og var hann fljótur að máta stólinn og stilla hann.
Þegar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hafði afhent Sigurði Inga lyklana að fjármála- og efnahagsráðuneytinu hélt Sigurður í innviðaráðuneytið þar sem hann afhenti Svandísi Svavarsdóttur sína lykla auk þess að bjóða hana velkomna í nýtt ráðuneyti.
Var það gert með miklum glæsibrag og féllust þau í faðma eins og svo margir aðrir ráðherrar gerðu í dag.
Næst var komið að Þórdísi Kolbrúnu að taka við lyklunum að utanríkisráðuneytinu af Bjarna eftir sex mánaða fjarveru hennar og viðveru Bjarna.
Bjarni þurfti ekki að verja löngum tíma í að kynna ráðuneytið fyrir Þórdísi, en saman fóru þau yfir inn- og útgönguleiðir á skrifstofuna.
Var þá komið að síðustu lyklaskiptunum og fóru þau fram í Borgartúni þar sem matvælaráðuneytið er til húsa.
Þar tók Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra vel á móti flokksystur sinni og nýjum ráðherra, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur.
Þau lyklaskipti voru nokkuð frábrugðin öðrum þeim lyklaskiptum sem höfðu átt sér stað fyrr um daginn því Svandís afhenti Bjarkey skeifu með áhangandi lyklum og óskaði henni góðs gengis.