Mótmæltu aðgerðaleysi með tonni af klaka

Klakinn stendur fyrir framan Háskólatorg.
Klakinn stendur fyrir framan Háskólatorg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nokkrir stúdentar komu saman fyrir framan Háskólatorg og kröfðust þess að Háskóli Íslands lýsi yfir neyðarástandi í loftlagsmálum og bjóði upp á U-passa fyrir stúdenta. 

S. Maggi Snorrason, Röskvuliði og einn skipuleggjenda, segir kröfufundinn hafa gengið vel enda hafi stúdentar miklar áhyggjur af loftslagsmálum. 

Framtíð unga fólksins að bráðna

Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, efndi til kröfufundarins og staflaði tonni af klaka fyrir utan Háskólatorg. 

Röskva stendur fyrir gjörningnum.
Röskva stendur fyrir gjörningnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þar mun klakinn bráðna rétt eins og framtíð ungs fólks bráðnar frá því ef við bregðumst ekki almennilega við loftslagsvánni,“ segir Maggi í samtali við mbl.is.

Þá voru aðrir þátttakendur hvattir til að koma með sinn eigin klaka til að bæta við staflann. 

Að fundi loknum fór hópur mótmælenda á skrifstofu rektors og afhentu bréf með kröfum sínum.

Neyðarástand í loftslagsmálum

Maggi segir að margir háskólar hafi lýst yfir neyðarástandi í loftlagsmálum á árunum 2019 og 2020 en Háskóli Íslands hafi ekki gert það.

Stúdentaráð krafði árið 2020 stjórnendur um að háskólinn lýsi yfir neyðarástandi í loftslagsmálum frá, en þá var Röskva í meirihluta ráðsins.

„Við erum í raun bara að minna á þessa kröfu okkar frá 2020, sem við gerðum líka 2022 og ætlum að halda því áfram.“

Maggi segir stúdenta hafa verið í miklu samtali við stjórnendur HÍ en það virðist ekki skila neinu. Þau svör sem stúdentar hafa fengið er að unnið sé að aðgerðaráætlun og stjórnendur vilja ekki lýsa yfir neyðarástandi fyrr en þeirri vinnu sé lokið. 

„Við höfum verið að krefjast þess að neyðaryfirlýsing komi strax og aðgerðaráætlunin í framhaldi, “ segir hann. 

Hópur stúdenta tók þátt í mótmælunum.
Hópur stúdenta tók þátt í mótmælunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kalla eftir U-passa

Röskva krefst einnig U-passa, sem er ódýrt samgöngukort af erlendri fyrirmynd. Kröfuna má má rekja aftur til 2017 segir Maggi. 

Fulltrúar Röskvu fengu loforð frá rektor um að ásættanlegar mótvægisaðgerðir fyrir stúdenta myndu liggja fyrir áður en gjaldskylda yrði sett á.

„Samt hætti háskólinn fyrirvaralaust við áform sín um að taka upp U-passa sem hefði ekki bara verið gríðarlega öflug mótvægisaðgerð heldur einnig massa jákvæður hvati til þess að nýta vistvænni samgöngumáta,“ segir í tilkynningu Röskvu um kröfufundinn. 

Ungt fólk hefur áhyggjur af loftlagsmálum segir S. Maggi Snorrason.
Ungt fólk hefur áhyggjur af loftlagsmálum segir S. Maggi Snorrason. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka