Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Miðausturlanda við Williams-háskólann í Bandaríkjunum, telur að Íranar hafi vísvitandi gætt hófs í árásum sínum á Ísrael og ekki viljað að átökin breiddust út enn frekar.
Þetta kemur fram í samtali Magnúsar Þorkels við mbl.is.
Hann segir Írana hafa sent dróna og eldflaugar í átt að hernaðarlegum mannvirkjum í Ísrael en ekki borgarlegum. Þannig hafi þeir viljað sýna að þeir hagi sér með öðrum hætti en Ísraelar.
„Þeir hafa eflaust líka viljað sjá hvernig herkerfi Ísraels myndi bregðast við árásum þeirra. Þeir túlkuðu það sem svo að árás á sendiskrifstofu þeirra á Damaskus hafi verið árás á Íran og þeir hefðu skyldu til að bregðast við með einhverjum hætti. Þeir telja því að með þessari aðgerð sé þeirri árás svarað og staðan sé kominn aftur og sama stað og hún var 1. apríl, það er að segja áður en Ísraelar réðust á sendiskrifstofuna í Damaskus.“
Magnús Þorkell er þá spurður hvers virði árás sé sem hæfir engin skortmörk. Hvað segir hún um getu Írana?
„Það er líka ákveðin fæling fólgin í því að gefa Ísraelum ekki of sterka ástæðu til þess að ráðast til baka á Írana. Ef einhverjir almennir borgarar hefðu fallið í árásinni, eða úthverfi í Tel Aviv hefði orðið fyrir árás, þá værum við að tala um allt annað núna.“
Hann segir árásina hafa sent ákveðin skilaboð. Íranar hafi við árásina ekki nýtt sér tengslanet sitt í Sýrlandi, Jemen eða Líbanon. Hann tekur líka til að Íranar hefðu líka getað ráðist með hryðjuverkum á eitthvað sendiráð Ísraela í heiminum til að hefna fyrir Damaskus, en það hafi ekki verið gert.
„Ég myndi því segja að þetta hafi verið varkár strategísk aðgerð. Íranar vildu sýna að þeir vilji ekki fara í stríð, en hafi getuna og áræðið í mögulegum átökum. Það sem þeir gerðu ekki finnst mér mun merkilegra og senda skýrari skilaboð en það sem þeir gerðu.“
Magnús Þorkell er þá spurður hvort það komi sér ekki vel fyrir stjórnvöld í Teheran að standa andspænis erlendum óvini og verða þannig vinsælli í augum borgaranna.
Hann telur svo mögulega geta verið en bendir á að í Íran hafi verið háværar raddir sem gagnrýnt hafa stríðsrekstur stjórnvalda í Sýrlandi. Efnahagsástand í Íran er bágborið og mörgum sárnar fjáraustur í stríðsrekstur á erlendri grundu á kostnað innviðafjárfestinga heima fyrir.
„Stjórnvöld telja lögmæti sitt byggjast á því að standa vörð um íslam og öryggi Írana og vilja því ekki endilega tengjast stríðsrekstri. Írakar réðust árið 1980 á Íran, sem var að mörgu leyti mjög hentugt stríð til þess að sameina írönsku þjóðina, og veitti ríkisvaldinu ákveðin tól og tæki til þess að kveða niður alla andstöðu heima fyrir.“
Magnús segir stöðu Írans aðra nú en í stríðinu við Íraka, skömmu eftir byltingu:
„Staðan er allt önnur núna. Íranar eru búnir að koma sér mjög vel fyrir í Vestur-Asíu. Þeir hafa náin tengsl við Rússland, Tyrkland, Indland og Kína. Þeir telja sig mikilvægan hlekk í nýrri keðju. Því vilja þeir ekki verða of uppteknir af gömlum deilum eins og átökum Ísraela og Palestínumanna, heldur geta einbeitt sér að ferskari málum.“
Hann er þá spurður um hlutverk annarra ríkja svo sem Rússlands og Kína, en hvaða skilaboð hafa Íranar fengið frá þeim?
Magnús bendir á að í kjölfar árásar Írana hafi þeir fengið langt símtal frá Indverjum sem hvatt hafi til stillingar. Hann telur fæst ríki Asíu vilja að þessi átök breiðist frekar út.
„Þótt orðræða Írana sé oft mjög herská, þá þegar litið er til þess sem þeir hafa gert á undanförnum árum, þá eru þeir oft frekar hófstilltir. Þeir hugsa þá oftast um eigin hagsmuni og það að hámarka eigin stöðu.
Ég tel því að Palestínumálið hafi minnkað töluvert að vægi. En þeir þurftu að svara fyrir sig í þessu tilfelli og það hefði töluvert veikt stöðu stjórnvalda í Teheran ef þeir hefðu ekkert brugðist við árásinni í Damaskus.“
En fari svo að átök stigmagnist, hvaða ríki gætu Írananar stólað á sem bandamenn?
„Sýrland og Líbanon eru stuðningsmenn þeirra. Írakar eru líka mjög nánir Írönum. Tyrkir og Íranar standa mjög nærri hvor öðrum. Eins hafa Íranar stutt stríðsrekstur Rússa í Úkraínu, og þar sem Íran er í bakgarði þeirra, þá fylgjast þeir mjög náið með þróun mála.
Þetta eru allt sannarlega bandamenn, þótt óvíst er hversu áreiðanlegir þeir verði í raunverulegum átökum. Svo eru vitaskuld öfl bæði í Íran og Ísrael sem gjarnan vilja að ákveðin stigmögnun átaka verði á milli landanna tveggja, þannig að þetta hangir allt á bláþræði.“
Hann telur að stjórnvöld í Ísrael hafi orðið fyrir miklum þrýstingi Bandaríkjamanna að svara ekki árásum sunnudagsins. Ísraelar, sem standa veikt fyrir á alþjóðavettvangi, hafi fengið samúð í kjölfar árásanna, sem þeir ættu að nýta sér. Sú samúð geti til dæmis liðkað fyrir afgreiðslu á frekari hernaðaraðstoð sem nú liggur fyrir Bandaríkjaþingi.
„Nýliðin helgi er líka algerlega andstæð hryðjuverkaárásinni 7. október. Þá gátu Ísraelar ekki varið sig sem skyldi, en helgin var mjög glæsileg stund fyrir bæði leyniþjónustu og varnarkerfi Ísraelsmanna. Þeir hafa því mögulega endurheimt eitthvað af því trausti borgaranna sem þeir glötuðu eftir 7. október.“
Blaðamaður spyr Magnús Þorkel hverja hann telji langtímahagsmuni Írana, sem oft sé erfitt að greina miðað við stuðning við vopnaðar sveitir hér og þar.
„Ég held að þessir vopnuðu hópar séu mjög mikilvægir í varnarhugsun þeirra. Ef landakortið er skoðað, þá telja þeir sig geta orðið leiðandi afl í norðurhluta Vestur-Asíu. Þeir ætla að taka þátt í Belti og braut Kínverja og tengja þannig Kína við meginland Evrópu. Með góðum tengslum við Líbanon og Sýrland hafa Íranar beint aðgengi að Miðjarðarhafinu. Með því að hafa sterk tengsl við Jemen þá hafa þeir fingurna í skipaumferð um Persaflóa og inn á Rauðahafið.
Það er þeim því mjög mikilvægt að þessi landssvæði séu á þeirra bandi. Íranskir fjölmiðlar tala mikið um það að 21. öldin verði öld Asíu, og sem asískt ríki vilja þeir hlutdeild í því. Þeir telja stöðugleika bestan í því samhengi.“