Námugröftur eftir rafmyntum í íslenskum gagnaverum er á undanhaldi að sögn Evu Sóleyjar Guðbjörnsdóttur, fjármálastjóra og aðstoðarforstjóra gagnaversfyrirtækisins atNorth.
Eva Sóley mun taka þátt í umræðum á Datacloud ESG 2024-gagnaversráðstefnunni sem hefst í dag í Hörpu í Reykjavík.
„Innan nokkurra mánaða verðum við hjá atNorth alveg farin úr námugreftri. Þá munum við fyrst og fremst vera í ofurtölvuþjónustu. Vissulega er orkan takmarkandi þáttur á Íslandi en við trúum að með tíð og tíma geri fleiri sér grein fyrir vægi þessa iðnaðar og viðurkenni hann sem mikilvægan útflutningsatvinnuveg,“ segir Eva Sóley í samtali við ViðskiptaMoggann.
Á ráðstefnunni, sem er stærsti viðburður sem haldinn hefur verið í geiranum hér á landi frá upphafi, munu leiðtogar iðnaðarins ræða sjálfbærar lausnir við rekstur og uppbyggingu gagnavera. Eva Sóley segir það vera útbreiddan misskilning að iðnaðurinn skapi fá störf. Hún segir gagnaver skapa umtalsverða þekkingu og fjölda starfa, bæði beint og óbeint.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag.