Þingsályktunartillaga um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar var felld á Alþingi rétt í þessu. Tillagan var felld með 35 atkvæðum gegn 25 atkvæðum.
Flokkur fólksins og Píratar lögðu tillöguna fram og mælti Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, fyrir henni klukkan 17 í dag. Tillagan fól í sér að Alþingi myndi álykta að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina og lýsa þeim vilja sínum að þing verði rofið fyrir 26. júní og efnt verði til almennra alþingiskosninga þann 7. september.
Umræður stóðu yfir til klukkan 22.15 er hlé var gert á þingfundi. Fundur hófst að nýju um klukkan 22.30 og þá tóku fjölmargir þingmenn til máls um atkvæðagreiðslu um ályktunina.