„Ég er náttúrulega í smá sjokki að þetta hafi gerst hér þar sem maður er umkringdur húsum og ekki meira en tíu skref að svefnherbergjum fjölda fólks,“ segir Kristofer Thor Deaton í samtali við mbl.is en hann varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu, sem margur bifreiðareigandi án bílskúrs óttast, að brotist var inn í færleik hans við Hellisgötu í Hafnarfirði aðfaranótt mánudags eftir að tilraun til þess hafði verið gerð fyrr um nóttina.
„Fyrst var gerð tilraun til að brjótast inn í bílinn, að öllum líkindum til að stela radarvara sem kostar rúmar 200.000 krónur,“ segir Kristofer frá. „Þessari tilraun fylgdi gríðarlegur hávaði sem vakti nokkra nágranna mína og einn þeirra hringdi í 112,“ heldur hann áfram.
Nágranninn hafði samband við Kristofer daginn eftir og kvaðst hafa hringt og fengið þau boð að lögreglan hygðist senda bifreið á vettvang til að kanna málið. Nágranninn sagðist svo hafa beðið í klukkustund og ekki hafi lögreglan látið sjá sig.
„Hann vaknar svo aftur við að verið var að berja í bílinn hjá mér, sem stóð beint fyrir utan hjá honum, lítur út um gluggann og sér þar náunga brjóta rúðuna, fara inn í bílinn og aftur út. Hann hringir aftur í 112 og ekkert gerist frekar en fyrra skiptið, þetta var á milli fimm og sex um morguninn,“ heldur Kristofer frásögn sinni áfram.
Hann fór svo í vinnu um morguninn, ekki á bifreið sinni, og vissi í raun ekkert af innbrotinu fyrr en lögreglan hringdi í hann eftir hádegið en þá höfðu gangandi vegfarendur tilkynnt um bifreið með brotna hliðarrúðu og lögregla komið á vettvang.
Þrátt fyrir að gráta horfinn radarvara er það þó meint áhugaleysi lögreglunnar sem fer jafnvel enn meira fyrir brjóstið á Kristofer. „Verðið á radarvaranum er kannski ekki allt heldur það að ég lendi í þessu, það er brotist inn í bílinn í hverfi sem er talið öruggt og ofan á allt gerði lögreglan ekkert í þessu,“ segir Kristofer svekktur.
Hann gekk á fund Hafnarfjarðarútibús lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og kveðst þar hafa komið að tómum kofunum, lögregla hafi ekkert kannast við málið og hann þá gefið skýrslu. „Mér var sagt að ekki hefðu verið mörg útköll milli miðnættis og klukkan sex um morguninn þessa nótt og lítið að gera,“ segir Kristofer og botnar ekki í því að lögreglan hafi ekki komið á vettvang þrátt fyrir tvær hringingar frá nágrannanum.
„Mér finnst þetta bara alveg glatað dæmi, hefði ég fengið að vita af því klukkan þrjú þegar reynt var að brjótast inn í bílinn hefði ég tekið radarvarann úr eða farið með bílinn upp í vinnu þar sem er myndavélakerfi. Þetta lítur út eins og lögreglan hafi ekki tekið mark á þessu eða bara verið sama þar sem málið væri ekki nógu alvarlegt. Eftir sit ég með 200.000 króna tap vegna radarvarans og 150.000 til að gera við skemmdirnar,“ segir Kristofer og telur hart vegið að sér – óbreyttum borgara sem orðið hafi fyrir barðinu á ótíndum glæpamönnum.
„Og það er ekkert sem ég get gert segja allir mér, ég fæ bara að heyra „svona er þetta bara“, er bara hægt að brjóta rúður og taka það sem maður vill og afleiðingarnar eru engar?“ spyr hann sár, „það er þá kannski rétt sem maður hefur heyrt frá sumum að löggunni sé bara sama um svona brot á meðan ekki er um dóp að ræða,“ segir Kristofer Thor Deaton að lokum og spyr sig hvert samfélög manna séu komin þegar raunveruleikinn sé orðinn sá sem við honum blasir.