Björgunarsveitirnar Þorbjörn og Skyggnir í Vogum leita nú að hópi fólks sem ætlaði sér að ganga upp að gosstöðvunum.
Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Hann segir fólkið hafa hringt eftir hjálp þegar það var orðið blautt, kalt og eitthvað áttavillt. Tæpir tveir klukkutímar eru síðan ósk eftir aðstoð barst björgunarsveitunum.
Þá segir hann björgunarsveitina telja sig hafa nokkuð góða hugmynd um hvar fólkið sé staðsett. Að minnsta kosti þrír eða fjórir hópar á vegum björgunarsveitanna leita nú á svæðinu.
Spurður hvort aðstæður á svæðinu séu hættulegar vegna gasmengunar segir Jón Þór ekki vita til þess að gasmengun sé á svæðinu og að hann treysti sínu fólki til að meta það.
Ekki er vitað hversu margir einstaklingar eru týndir.
Uppfært 19.55
Fólkið er fundið eftir um klukkutíma leit. Um var að ræða þrjá einstaklinga sem týndust. Hópurinn var nokkuð austan við eldgosið þegar björgunarsveitarfólk fann hann.
Þau voru blaut og köld en að öðru leiti í góðu ástandi segir Jón Þór í samtali við mbl.is. Fólkið er nú á leiðinni til baka í bæinn með aðstoð björgunarsveita.