Ofbeldi eykst gegn opinberu starfsfólki

Skráðum ofbeldisbrotum gegn opinberum starfsmönnum hefur fjölgað talsvert frá árinu …
Skráðum ofbeldisbrotum gegn opinberum starfsmönnum hefur fjölgað talsvert frá árinu 2013. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ofbeldisbrot gegn opinberum starfsmönnum innan lögreglunnar, ákæruvalds og dómsvalds hefur fjölgað til muna frá árinu 2013 til ársins 2023. 

Tilfellum um ofbeldisbrot gegn ofangreindum starfsstéttum fjölgaði um liðlega hundrað árið 2023 samanborið við árið 2013. 

Þetta kemur fram í svari Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Njáls Trausta Friðbertssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um hótanir og ofbeldi gagnvart starfsmönnum lögreglu, ákæruvalds og dómvalds.

Talsverð aukning árið 2023

Í svari dómsmálaráðherra segir að tekin hafi verið saman öll ofbeldisbrot sem tilkynnt voru til lögreglu, óháð því hvort að gefin hafi verið út ákæra eða ekki. 

Þá kemur einnig fram í svari ráðherra að tekin séu saman brot er varða 106. grein almennra hegningarlaga, þannig felur sundurliðunin bæði í sér tilfelli um ofbeldi og hótanir um ofbeldi. 

Samkvæmt þeirri sundurliðun voru alls 146 skráð brot árið 2013 en 256 árið 2023. Brotum hefur fjölgað jafnt og þétt á milli ára, að árinu 2016 undanteknu, þar sem að brotum fækkaði talsvert. 

Athygli vekur að árið 2023 voru 256 brot skráð en 211 árið áður, er það mesta fjölgun skráðra brota á milli ára frá árinu 2013. 

Brot flest á höfuðborgarsvæðinu

Flest voru brotin á höfuðborgarsvæðinu árið 2023 eða 120 alls skráð. Þar á eftir voru brot á Suðurlandi eða 50. 

Ofbeldisbrot gegn lögreglumönnum eru í miklum meirihluta af ofangreindum starfstéttum. Alls voru 178 brot skráð er vörðuðu starfsmenn lögreglunnar, en 78 brot skráð gegn opinberum starfsmönnum utan lögreglunnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert