Vill engin tímamörk á fóstureyðingum

Í Spursmálum er Katrín spurð út í nokkur umdeild mál sem hún hefur komið að á síðustu árum. Eitt þeirra er löggjöfin frá 2019 þar sem rétturinn til fóstureyðinga var rýmkaður. Þannig má nú eyða fóstrum í allt að 22 vikur frá getnaði en áður fyrr giltu tímamörk sem miðuðu við 16 vikur. Í sömu löggjöf var hugtakanotkun breytt þannig að þar er ekki lengur talað um fóstureyðingu heldur þungunarrof.

Þá lýsti Katrín því yfir að hún teldi rétt að konur hefðu rétt til þess að eyða fóstrum allt fram að fæðingu, en hefðbundin meðganga er talin 37 til 42 vikur. Segist hún treysta konum til að taka réttar ákvarðanir um líkama sinn og að engri konu sé það léttbært að láta eyða fóstri.

Ákvörðun aldrei tekin af léttúð

Það geta komið upp þær aðstæður þar sem konur upp á sitt einsdæmi ákveða þetta fyrir hönd hins ófædda einstaklings, ertu á þeirri skoðun, óháð öðru, að það sé réttur viðkomandi og að hann þurfi ekki að axla á því ábyrgð?

„Ég hef stutt sjálfsákvörðunarrétt kvenna og studdi því þetta mál því ég veit það bara að þetta er ekki ákvörðun sem er nokkru sinni tekin af léttúð.“

Þannig að þú ert á þeirri skoðun að það ættu ekki að vera viðurlög við því ef móðir tæki ákvörðun um að gera þetta fram á síðasta dag?

„Ja, nú erum við bara með gildandi lög og reglur og þeim þarf að sjálfsögðu að fylgja eins og þau eru. En ég vil segja það líka, og það er áhugavert, að nýlega var birt frétt um hvaða áhrif þessi löggjöf hefði haft og hún hefur alls ekki orðið til þess að fjölga…“

Margt sem gerist í lífi fólks

En það geta komið upp tilvik, og þess vegna spyr ég út í þetta.

„Það getur margt gerst í lífi fólks en þetta snýst bara um það grundvallaratriði, treystum við konum? Og ég segi já við því.“

Katrín Jakobsdóttir er nýjasti gestur Spursmála.
Katrín Jakobsdóttir er nýjasti gestur Spursmála. mbl.is/María Matthíasdóttir

Spurning um að treysta fólki?

En lögin eru uppfull af lagabálkum þar sem við treystum ekki fólki. Þetta er væntanlega ekki eina málið þar sem við treystum fólki ekki. Fólk getur líka tekið hræðilegar og svívirðilegar ákvarðanir og ríkið bregst við eða reynir að koma í veg fyrir slíkt.

„Ja, það er eins og ég segi með þessar ákvarðanir að þær eru ekki teknar af léttúð, þegar fólk ákveður að fara í þungunarrof. Þess vegna vil ég ekki tala um slíkar ákvarðanir sem svívirðilegar, eins og að ráðast í glæpi eða eitthvað slíkt.“

En mörgum þætti það svívirðilegt að deyða barn degi fyrir fæðingu.

„Ég held líka að það sé ekki raunin og bendi á reynsluna af lögunum,“ svarar Katrín.

Viðtalið við Katrínu Jakobsdóttur má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert