Arnþrúður svarar Ingu Björk

Arnþrúður Karlsdóttir og Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir.
Arnþrúður Karlsdóttir og Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir. Samsett mynd

Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri á Útvarpi Sögu, segir ásakanir Ingu Bjarkar Margrétar Bjarnadóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar, vera alfarið rangar. 

Inga Björk sagði af sér varaþing­mennsku fyr­ir Sam­fylk­ing­una og öðrum trúnaðar­störf­um fyr­ir flokk­inn, og greindi frá því á Facebook í dag. Sam­fylk­ing­in hafði sofnað á verðinum í veiga­mikl­um mann­rétt­inda­mál­um, að mati Ingu Bjarkar.

Inga Björk sagði frá því að Arnþrúði hafi verið boðið að tala á fundi á vegum flokksins. Sagði hún Arnþrúði básúna hatursorðræðu gegn hinsegin fólki og innflytjendum.

„Það er vont að þurfa að útskýra að það að leyfa útvarpskonu sem hefur verið dæmd fyrir hatursorðræðu, að láta gamminn geysa, hefur áhrif á líf mitt, fjölskyldu minnar og alls annars hinsegin fólks,“ sagði Inga Björk.

Réttlætir eigin óánægju með ósannindum

Arnþrúður segir í samtali við mbl.is það vera alfarið rangt að hún hafi verið dæmd fyrir hatursorðræðu. Útvarp Saga hafi heldur aldrei verið dæmd fyrir slíkt.

„Það er illa fyrir fólki komið þegar það þarf að réttlæta eigin óánægju með því að grípa til ósanninda. Það getur varla talist glæpur að Samfylkingin hafi beðið mig að tala á ráðstefnu ásamt fleiri blaðamönnum,“ segir Arnþrúður.

Pétur ákærður fyrir hatursorðræðu

Í nóvember 2016 ákærði lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu Pét­ur Gunn­laugs­son, lög­mann og út­varps­mann á Útvarpi Sögu, fyr­ir hat­ursorðræðu og út­breiðslu hat­urs með því að hafa í sam­ræðum við hlust­end­ur stöðvar­inn­ar látið um­mæli falla sem voru hat­urs­full í garð sam­kyn­hneigðra.

Máli ákæru­valds­ins gegn Pétri var vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur í janúar 2017.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert