Kosningabaráttan bara rétt að byrja

Halla Hrund er hástökkvarinn í nýrri könnun Prósents.
Halla Hrund er hástökkvarinn í nýrri könnun Prósents. Ljósmynd/Aðsend

Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi er þakklát fyrir stuðninginn sem hún finnur fyrir en segir sig þó bara vera rétt að byrja.

Halla mæl­ist með 18% fylgi í könnun Prósents og hef­ur því naum­lega kom­ist upp fyr­ir Jón Gnarr í fylgi.

„Ég er ótrúlega þakklát fyrir þennan stuðning sem birtist í þessari könnun. Þó þetta sé auðvitað bara könnun og enn sé langt til kosninga þá er þetta í takt við þann meðbyr sem ég finn í samtölum við fólk,“ segir Halla í samtali við mbl.is.

Samhljómur við áherslur hennar

Hún er núna stödd á Ísafirði og hefur verið að heimsækja Suðureyri, Þingeyri, Flateyri, Bolungarvík og Súðavík á síðustu dögum.

Hún kveðst finna fyrir því í samtölum við fólk að það sé samhljómur við áherslur hennar.

„Við erum að tala um mikilvægi samstarfs, við erum að tala um mikilvægi þátttöku fyrir framtíð Íslands og þessir þættir eru svo áberandi í þessum samfélögum,“ segir Halla og nefnir Fossavatnsgönguna sem hún tók þátt í um helgina, menningarstarfsemina og sjávarútveginn.

Hlutverk forsetans að magna tækifæri“

Hún segir mikilvægt fyrir samfélagið að þétta raðirnar og vinna saman til að fjölga tækifærum á Íslandi. Spurð út í mikla fylgisaukningu segir Halla:

„Ég er ótrúlega þakklát fyrir viðtökurnar og stuðninginn, við erum auðvitað bara rétt að byrja. Sólin er að hækka á lofti og við erum á ferð um landið,“ segir hún og útskýrir að hún muni ferðast um landið vítt og breytt á næstunni.

Hún kveðst ætla halda áfram að eiga samtal við fólk.

„Það er hlutverk forsetans að magna tækifæri á Íslandi, heima og að heiman. Samtalið snýst um það líka, hvernig getum við unnið saman að því að stækka tækifæri landsins og móta tækifæri framtíðarinnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert