„Mér finnst meðbyrinn frábær og kosningabaráttustrategían okkar er að ganga upp,“ segir Jón Gnarr forsetaframbjóðandi í samtali við mbl.is.
Í könnun Prósents sem birtist í Morgunblaðinu í morgun mælist Jón Gnarr með 17,2% og er með fjórða mesta fylgið í þeirri könnun.
Hann segir að fyrrnefnd strategía sé að vinna hlutina jafnt og þétt og að hafa samræmi í því sem verið er að gera. Nefnir hann sem dæmi að nú sé til dæmis verið að kynna stuðningsmenn framboðsins á samfélagsmiðlum.
„Ég er bara sáttur við mína stöðu, mér finnst ég halda mínu fylgi. Þannig mér finnst þetta frábært,“ segir Jón Gnarr.
Þá segir hann greinilegt að fylgið sé á dreifingu ef marka má könnunina.
„Ég hef meira verið að stóla á samfelldan leik frekar en einhver upphlaup eða spretti. Nokkuð samræmi og við erum að halda í styrkleikanna en líka aðeins að vinna í veikleikunum.“
Hann segir þetta stefni í að verða athyglisverða og skemmtilega kosningabaráttu og hann finnur fyrir miklum áhuga fólks á baráttunni.
„Ég held að fólk sé líka að lesa í frambjóðendurna, fylgjast með þeim og jafnvel að skipta um einhverjar skoðun.“
Jón Gnarr er búinn að vera ferðast um landið eins og aðrir frambjóðendur og á næstu dögum stefnir hann á að kíkja á Vestfirði. Þá langar honum að ferðast norður á Eyjafjörð, Akureyri og nágrannasveitarfélög. Hann reynir að ferðast á alla þá staði sem hann kemst á.
„Ég er náttúrulega að leika í leikriti í Borgarleikhúsinu og það eru sýningar um helgar. Þannig ég er svona að sníða mér stakk eftir vexti,“ segir Jón kíminn.