Vonbrigði fyrir Katrínu?

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, segist vel geta ímyndað sér að það séu ákveðin vonbrigði fyrir Katrínu Jakobsdóttur, forsetaframbjóðanda og fyrrverandi forsætisráðherra, að mælast ekki með meira fylgi en raun ber vitni. 

Eiríkur er gestur í Dagmálum í dag og er þátturinn aðgengilegur áskrifendum Morgunblaðsins. 

Í könnun Prósents mælist Katrín með tæplega 24 prósenta fylgi, næstmest fylgi allra frambjóðenda.

„Það gæti verið. Ég held að einhverjir gætu hafa átt von á því að hún myndi bara stinga af og þetta væri bara búið spil fyrir hina,“ segir Eiríkur. 

Höfuðandstæðingurinn tók við keflinu

Eiríkur segir ekki óþekkt að sitjandi forsætisráðherra stígi af stóli og fari beint í forsetaframboð, en að það geti þó komið illa við fólk. Hann telur líka að ráðherrakapallinn sem ríkisstjórnin lagði á borðið í kjölfarið gæti hafa komið illa við kjósendur. 

„Þar sest formaður Sjálfstæðisflokksins í forsætisráðherrastól og það eru ekki allir fylgismenn Katrínar Jakobsdóttur ánægðir með það. Að Vinstri grænir hafi glatað ríkisstjórnarforysunni, ekki bara hvert sem er, heldur í hendur þess sem hefur hefðbundið verið talinn höfuðandstæðingur,“ segir Eiríkur. 

„Ég held að margir sem myndu vilja kjósa hana eigi erfitt með að kyngja þessu. Og ég held að Halla Hrund [Logadóttir] gæti verið að njóta góðs af þessu,“ segir Eiríkur. 

Hann bendir á að það séu svo margir hægra megin á litrófinu séu mjög ánægðir með ríkisstjórnarkapalinn og geti meðal annars þess vegna hugsað sér að kjósa Katrínu. 

Kunni að jaðra við svik

Spurður að því hvort hann telji að fylgismenn Katrínar hefðu frekar sætt sig við að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, hefði tekið við forsætisráðherrastólnum svarar hann játandi. 

„Ég held að þetta óþol sem hefur myndast vinstra megin, sem eru hinu náttúrlegu kjósendur Katrínar Jakobsdóttur, hefðu sætt sig miklu frekar við það. Það hefði ekki myndast þetta óbragð í munni kannski, sem margir þeim megin kunna að hafa vegna þessa vendinga. Þessi ríkisstjórn hefði aldrei verið mynduð nema undir forystu Vinstri grænna og nú er komin annað. Margir hefðbundnir Vinstri grænir, þeim finnst þetta jaðri við svik. Ég ætla nú ekki að segja að þeim finnist þetta vera svik, en svona næstum því,“ segir Eiríkur. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert