„Við vorum með táknræna uppákomu í Tjarnarsal Ráðhússins þar sem við komum fyrir um 1.600 vettlingum, en hver þeirra táknar hvert það barn sem er á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík núna,“ segir Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, í samtali við Morgunblaðið.
Hildur segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi sett umræðu um leikskóla og daggæslumál í borginni á dagskrá borgarstjórnarfundar í gær með það að markmiði að vekja athygli á afleitri stöðu dagvistarmála í borginni.
„Nýlega komu fram þær upplýsingar að um 1.600 börn væru að bíða eftir leikskólaplássi í borginni og að fjöldi bættist við í hverjum einasta mánuði. Á listanum eru bara 12 mánaða börn og eldri, þannig að í hverjum mánuði fjölgar í hópnum. Biðlistinn mun þannig lengjast fram á haustið, sem sýnir hve staðan er slæm,“ segir Hildur.
„Það merkilega er að frá árinu 2014 þegar Dagur B. Eggertsson tók við og til ársins 2023 hefur börnum á leikskólaaldri í Reykjavík fækkað um 1.000 eða 10%. Á sama tímabili hefur leik- og daggæsluplássum fækkað um 940 sem sýnir að áherslan hefur alls ekki verið á þennan málaflokk. Það er ekki aðeins að plássunum hafi fækkað um 940, heldur eru meira en 360 pláss ónothæf vegna myglu og viðhaldsvanda. Þetta er enn ein birtingarmyndin á andvara- og stjórnleysi í borgarkerfinu,“ segir Hildur.