„Já, einu sinni á ári fær einhver einn höfundur sem hefur gert eitthvað af sér þessi verðlaun,“ segir Friðrik Karlsson gítarleikari í samtali við Morgunblaðið en honum féll Langspilið svokallaða í skaut í gær.
Er þar um að ræða verðlaun STEFs sem að sögn Guðrúnar Bjarkar Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra samtakanna, eru veitt höfundi sem að mati stjórnar STEFs er talinn hafa skarað fram úr og náð eftirtektarverðum árangri á nýliðnu ári. Er það hagleiksmaðurinn Jón Sigurðsson á Þingeyri sem sérsmíðar verðlaunagripinn ár hvert.
Friðrik hlaut verðlaunin í ár fyrir gerð slökunartónlistar en hann er að sögn Guðrúnar ákveðinn frumkvöðull í gerð hennar hér á landi „og hefur hann náð eftirtektarverðum árangri með tónlist sína, sérstaklega í streymi. Fyrir ekki svo löngu síðan færði Friðrik öll réttindi sín til STEFs frá breskum höfundarréttarsamtökum og hefur séð mikinn árangur eftir það í samstarfi við STEF,“ segir Guðrún enn fremur frá.
En Friðrik segir líka frá, enda höfuðviðmælandi þessa viðtals, og er spurður út í þennan mikla og góða árangur í slökunartónlistinni sem hann raunar kom einnig inn á í afmælisviðtali hér í blaðinu á sextugsafmæli sínu vorið 2020 sem lesa má handan tengilsins hér að neðan.
„Ég er búinn að helga mig þessari slökunartónlist og hef verið í henni í 20 ár og kominn með dreifingu og notkun úti um allan heim, ég fæ mesta spilun í Ameríku,“ segir Friðrik frá, talandinn slakur og þægilegur eins og tónlistin hans. „Þú getur náð skjótum árangri í tónlist ef þú ert með lag sem verður vinsælt og fær mikla spilun í útvarpi, eins og Björk hefur náð og Of Monsters and Men,“ útskýrir Friðrik.
Hann segir að hans dæmigerðasti viðskiptavinur sé einhver sem hlusti á sama lagið alltaf áður en hann fer að sofa, á hverjum degi allt árið. „Þá lendir maður stundum á einhverjum spilunarlistum sem ég sé auðvitað hjá mér á Spotify og heita kannski „Putting the kids to sleep“ og fleira í þeim dúr þar sem fólk er að nota tónlistina mína í einhverju lífsstílsskyni,“ segir gítarleikarinn.
Þetta þykir honum skemmtilegt og jákvætt. „Ég er kannski dálítið heppinn að vera tilbúinn með þessa afurð þegar þetta byrjaði að verða vinsælt. Þess vegna er þetta að gerast, notkun á minni tónlist hefur margfaldast síðustu ár,“ segir tónlistarmaðurinn frá og ljóstrar því upp að hann semji til dæmis tónlist fyrir Bláa lónið, Sky Lagon og fleiri íslenska aðila.
Þeir sem komnir eru af því allra léttasta tengja Friðrik Karlsson hins vegar einnig við annað fyrirbæri sem er hin fornfræga sveit Mezzoforte.
Hún starfar enn af krafti og segir Friðrik frá nýafstaðinni tónleikaferð til Noregs þar sem sveitin hefur náð einna mestum vinsældum utan Íslands. Var þar höfuðstaðurinn Ósló auðvitað heimsóttur og steig þessi lífseiga bræðingssveit, eins og Friðrik vill kalla hana, þar á svið í Vulkan Arena auk þess sem leikurinn barst til Bærum og Nøtterøy við Tønsberg. Þá var góð rispa tekin hjá sænsku nágrönnunum. Önnur ferð til Noregs á dagskrá í haust.
„Það er gaman að spila í Noregi og við seljum rosalega vel þar,“ segir gítarleikarinn en lætur einnig vel af móttökum Mezzoforte í Danmörku, Þýskalandi og Indónesíu. „Mezzoforte er órjúfanlegur hluti af því sem ég stend fyrir,“ bætir hann við.
Friðrik Karlsson sleppur vitanlega ekki við gamlar klisjuspurningar frekar en aðrir þekktir listamenn í viðtölum. Hvaða þýðingu hefur það fyrir hann að hafa hlotið Langspilið í gær?
„Ja, þetta er viðurkenning fyrir það sem maður er að gera. Þetta er næstum því enginn að fást við hér á landi, sumt af tónlistinni hans Ólafs Arnalds fellur reyndar undir svona lífsstíls- og slökunartónlist en í þessu er eiginlega enginn annar. Það er þannig með tónlist að það er til góð tónlist og slæm tónlist, sígild tónlist þarf ekki að vera góð þótt hún sé sígild,“ segir Friðrik og hlær við.
„Þegar ég var að byrja á þessu þótti maður hálfgerður furðufugl að vera að gera einhverja svona tónlist svo þetta er bara virkilega gaman, það er alltaf gaman að fá klapp á bakið þótt það sé ekki fyrir einhverja „mainstream“ popptónlist,“ segir Friðrik Karlsson gítarleikari af hógværð undir lokin, handhafi Langspilsins árið 2024.