Helgi Gíslason, skólastjóri Fellaskóla segir margt gert til þess að auka íslenskukunnáttu og félagsþátttöku nemenda í hverfinu.
Blaðamaður var forvitinn að ræða við Helga, eftir greinarskrif Eðvarðs Hilmarssonar grunnskólakennara og viðtals við Brynjar Karl Sigurðsson íþróttaþjálfara á Vísi í síðustu viku. Helgi kýs að tjá sig ekki um þau sérstaklega.
Hann segir rétt að í Fellaskóla sé fjölmenning ríkjandi. Hlutfall tví- og fjöltyngdra nemenda hafi hins vegar verið svipað undanfarin ár og að margir þeirra nemenda séu fæddir á Íslandi.
Skólinn leggi mjög mikla áherslu á íslenskukennslu og sé gjarnan sagt að það sé hlutverk allra faggreinakennara að vera íslenskukennarar. Auðvitað þurfi að veita nemendum sem eru að læra íslensku sérstakan stuðning og þar er kennt samkvæmt námskrá íslensku sem annars máls.
Helgi segir fjölmargt hafi verið gert til að mæta þörfum nemendahópsins meðal annars með stuðningi Reykjavíkurborgar og ráðuneyta mennta- og velferðarmála. Sem dæmi sé unnið náið með leikskólunum í hverfinu í því að bæta og samhæfa vinnubrögð sem lúta að því að efla málþroska og læsi meðal nemenda. Með þeim aðgerðum mælist lestrarfærni nemenda í yngstu bekkjum Fellaskóla á landsmeðaltali.
Þá er í Breiðholtsskóla sérstök móttökudeild fyrir nemendur í Breiðholti þar sem nemendur fá öfluga kennslu í íslensku. Nemendur séu jafnframt skráðir í sinn heimaskóla og færast alfarið þangað þegar þeir hafa náð ákveðnum áfanga í íslenskunni.
Lengri tími í íslensku málumhverfi tryggður
Helgi segir unnið markvisst að því að byggja upp orðaforða í íslensku hjá nemendum. Frístundaheimilið Vinafell sé hluti af skóladegi nemenda í fyrsta og öðrum bekk. Sú þjónusta sé gjaldfrjáls fyrir foreldra samkvæmt ákvörðun Reykjavíkurborgar. Þannig verji nemendur af erlendum uppruna til dæmis lengri tíma í íslensku málumhverfi í skóla.
„Við segjum gjarnan að það það þarf heilt þorp til að ala upp barn og skiptir því máli að allar stofnanir hverfisins komi að því að styðja við íslenskunám nýrra Íslendinga.“ Helgi segir að í Fellaskóla hafi markvisst verið unnið að því að nemendur taki þátt í tómstunda- og íþróttastarfi.
„Við styðjum nemenda og foreldra að finna viðeigandi úrræði og á þjónustumiðstöðinni Suðurmiðstöð er starfsmaður sem sinnir einnig þessu hlutverki. Þá er gott samstarf við félagsmiðstöð, Leikni, Tónskóla Sigursveins, Borgarbókasafnið í Gerðubergi og fleiri aðila sem miðar að því að nemendur taki þátt og fái aukin tækifæri til að vera í íslensku málumhverfi. Í skólastarfinu leggjum við mikla áherslu á tónlist og tónlistarnám enda segja rannsóknir að tónlistarnám styðji við málþroska nemenda.“
Og Helgi bætir við:
„Við þekkjum auðvitað að nemendur með sama móðurmál vilja gjarnan tala saman á því tungumáli. Við getum auðvitað ekki hindrað það en í kennslustundum eiga nemendur að tala íslensku. Þetta er ekki staðbundið við Breiðholtið heldur til marks um hvernig íslenskt samfélag er að þróast. Þá má nefna að í Breiðholti er öflugt samstarf kennara sem kenna íslensku sem annað mál sem auðvitað kemur nemendum til góða.“
Helgi segir að sem samfélag þurfum við mögulega að huga betur að því hvernig fólk lærir íslensku. Hvaða tækifæri hafa foreldrar nemenda til að læra íslensku og hvort við erum að tala við þau íslensku í skólanum, á íþróttaæfingum, í félagsmiðstöðinni og svo framvegis.
Hann segir grunnskóla almennt ekki hafa upplýsingar um hvernig fyrrverandi nemendum vegni að útskrift lokinni. „Við vitum þó að margir okkar nemendur hafa staðið sig með ágætum í framhaldsskólum.“
Helgi er þá spurður hvort hann hafi orðið var við flótta barna með íslensku sem móðurmál úr hverfinu, þar sem óttast sé um málþroska þeirra.
„Nei, þetta kannast ég ekki við. Auðvitað er hér alltaf ákveðin hreyfing á fólki og dæmi um að foreldrar sæki um að fara í annan grunnskóla, en það er þá oftar en ekki tengt líðan nemenda af öðrum orsökum.“
Að síðustu er Helgi spurður hvort borgaryfirvöld hafi skilning á sérstækum aðstæðum í Fellaskóla og víðar í Breiðholti.
„Já, við upplifum það þannig að það sé skilningur á aðstæðum okkar. Skólinn hefur fengið aukið fjármagn til þess að bæta kennslu og skólastarfið almennt. Svo má alltaf deila um hvenær er nóg nóg. Við vildum gjarnan hafa ennþá meiri möguleika til að gera ýmsa hluti.“