„Nú er staðan sú að kvikan dreifist á tvo staði sem er óvanalegt en leiðin upp er ekki greiðari en svo að kvika safnast fyrir,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um stöðu gosmála á Reykjanesskaga.
Segir Magnús svipað hafa verið uppi á teningnum í Eyjafjallajökulsgosinu á sínum tíma. „Því fylgdi landsig sem svo var fylgt eftir af landrisi og gos hófst að nýju,“ rifjar prófessorinn upp, „þannig að þetta hefur sést áður en við höfum aldrei séð þetta í gangi samhliða í svona langan tíma.“
Þrýstingurinn sem þurfi til að koma kvikunni upp dreifist þar með á tvo staði og þrýstingur að neðan byggist þar með upp að einhverju leyti – en ekki öllu þar sem gos stendur þegar yfir. „Gosið gæti þá aukist aftur og gossprungan lengst, það er sviðsmynd sem við verðum að búa okkur undir og því fara að öllu með gát á gosstöðvunum, þetta getur gerst mjög hratt,“ heldur Magnús Tumi áfram.
Hann segir engin merki um að atburðarásin á gosstöðvunum sé að lognast út af, nú hafi stöðugt innflæði kviku staðið yfir í rúma sex mánuði sem sé svipaður tími og í gosinu við Fagradalsfjall. „Nú er bara óvissa um hvernig þetta mun þróast en það sem getur gerst er að sprungan rifni upp aftur og gosið vaxi á ný, líklegra er þá að gosið færist í norður, það er nær uppstreymissvæðinu,“ segir jarðeðlisfræðingurinn.
Hann segir eðlilegra að tala um að það gos sem nú í gangi geti skyndilega vaxið. „Við tölum um að gosið vaxi eða aukist aftur, það er það sem nú getur gerst. Mælingar ná ekki svo langt aftur að við vitum hve algeng svona hegðun er, hefði þetta gos orðið fyrir 60-70 árum hefðum við engar mælingar sem sýndu okkur hvort landið væri að þenjast út eða hvað,“ segir hann.
Aukist núverandi gos sé ekki ólíklegt að það gerist með sama hætti og í öðrum gosum sem hægt sé að vitna til varðandi svipaðar aðstæður.
„Stóra myndin er sú að enginn endir blasir við á þeirri atburðarás sem við höfum verið að horfa á síðustu mánuði sem segir okkur bara það að þetta geti haldið áfram og við vitum ekki hve lengi. Ef við horfum hins vegar á hve mikið hefur komið upp [af kviku] í svipuðum eldgosum gætum við búist við því að það sem nú hefur gerst síðustu ár sé kannski einn þriðji af því sem búast má við á næstu, ja nú vitum við það ekki alveg, en kannski næstu 20-30 árum,“ segir Magnús Tumi og ígrundar hvert orð sitt vandlega við þetta spálíkan sem fræði hans eiga erfitt með að fastsetja að hætti reglubundnari raunvísinda.
Mikilvægt sé að hafa í huga að hegðun Reykjanesskaga gefi ekki til kynna samfelld gos í ár og áratugi. „Það er ekki það sem skaginn hefur verið að gera en það geta komið hlé og gos komið aftur sem svo klárast á viðkomandi svæði. Svo geta liðið kannski hundrað ár þar til gýs næst, um það getum við ekkert vitað,“ útskýrir prófessorinn eftir bestu getu.
Reykjanesskagagosin séu langhlaup sem geti gengið yfir í töluverðan tíma með hléum og vel sé þess virði að reyna að verja Grindavík svo sem kostur sé á og nýta bæinn þegar gosum linni.
„Þarna er komin af stað heilmikil starfsemi sem er mikilvæg til að lágmarka skaðann af þessum öflum, það er skammtímastaðan sem er full af fyrirvörum en langtímastaðan bendir til þess að við eigum eftir að sjá þessa þróun halda áfram í töluverðan tíma og undir það verðum við að vera búin,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur að lokum.