Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Vinstri grænna, kemur Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur fréttamanni til varnar og sakar fréttastjórn Rúv um ritskoðun og þöggun.
Þetta kemur fram í færslu á bloggi Ögmundar en fréttaskýring sem María Sigrún vann að fyrir Kveik var tekin af dagskrá á þriðjudag og er hún nú ekki lengur hluti af ritstjórn þáttarins.
Heiðar Örn Sigurfinsson, fréttastjóri Rúv, skrifaði á Facebook í gær að fréttaskýringin hefði ekki verið „fullbúin til sýningar“ og að engin annarleg sjónarmið hafi búið að baki. Að öðru leyti sagðist hann ekki ætla að tjá sig um starfsmannamál.
Síðari um daginn birti María Sigrún færslu þar sem hún rak sína hlið málsins og sagði að sér þætti miður hvernig fór. Hún deildi síðan færslu Ögmundar í gærkvöldi.
Ögmundur telur að fresta hefði átt umfjöllun Maríu Sigrúnar „hávaðalaust í stað þess að reka fréttamanninn á dyr með svívirðingum opinberlega“.
Ögmundur telur það vera fjarri að um sé að ræða starfsmannamál heldur tilraun til ritskoðunar og þöggunar. Samkvæmt heimildum DV fjallaði skýring Maríu Sigrúnar um meintan gjafagjörning Reykjavíkurborgar til olíufélaga í júní árið 2021.
„Hitt er morgunljóst að um er að ræða grófa ærumeiðingu um góða og faglega fréttakonu,“ ritar Ögmundur.
„Fréttastofunni ber að biðja Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur afsökunar og reyndar einnig okkur sem eigum þessa fréttastofu og höfum þá menn í vinnu sem ekkert segjast vilja við okkur tala.“
Í færslu Heiðars Arnar kom fram að stjórnendur fréttastofu Rúv buðu upp á að fréttaskýringu Maríu Sigrúnar yrði fundinn farvegur í Kastljósi.