Þingsályktunartillaga að stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024 til 2028 var samþykkt mótatkvæðalaust á Alþingi í dag með 47 atkvæðum.
Tillagan var lögð fram á Alþingi 12. mars af Bjarna Benediktssyni, þáverandi utanríkisráðherra og núverandi forsætisráðherra, og miðar að því að styðja við sjálfstæði, fullveldi, friðhelgi landamæra, öryggi borgara, mannúðaraðstoð og uppbyggingarstarf í Úkraínu.
Nokkrar umræður hafa skapast um þriðja lið stefnunnar sem snýr að stuðningi við varnarbaráttu Úkraínu til að tryggja öryggi borgara og mikilvægra innviða.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var meðal þeirra sem tók til máls um atkvæðagreiðsluna og gerði athugasemd við þennan lið og að hluti þessarar aðstoðar fælist í kaupum á hergögnum.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir var á sama máli og greiddi því ekki atkvæði með 3. lið stefnunnar. Sagðist hún ekki geta stutt aðkomu Íslands að beinum kaupum á hergögnum.
Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, var þó á öðru máli og sagðist hann styðja sérstaklega stuðning við varnarbaráttu Úkraínu til að tryggja öryggi borgara og mikilvægra innviða eins og segir í 3. tölulið.
Þórhildur Sunna gerði jafnframt athugasemd við þá meðferð sem málið hlaut, eða öllu heldur að stjórnartillagan hefði ekki verið send til umsagnar.
„Við höfum gert athugasemdir við þessa málsmeðferð enda er það ekki svo að það að ein ákveðin nefnd Alþingis sé sammála um ágæti einhvers máls að það þýði að þjóðin eigi ekki að hafa rödd gagnvart málinu. Eru þessi vinnubrögð utanríkisnefndar því ekki til fyrirmyndar.“
Þessu svaraði Diljá Mist Einarsdóttir, formaður utanríkismálanefndar.
Sagði hún málið hafa fengið fyrirtaks þinglega meðferð og því væri leitt að sjá Þórhildi gagnrýna meðal annars aðkomu eigin þingmanns í nefndinni, sem skrifaði sérstaklega undir umrædda meðferð nefndarinnar.