Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa sýnt lítilsvirðingu gagnvart konum, ef miðað er við þá framkomu sem María Sigrún Hilmarsdóttir fréttamaður hefur lýst síðustu daga.
Á föstudag var greint frá því að María Sigrún væri ekki lengur hluti af ritstjórn Kveiks, þar sem krafta hennar var ekki lengur óskað. Þá sagði hún Ingólf Bjarna Sigfússon, ritstjóra Kveiks, hafa sagt við sig að hæfileikar hennar lægju ekki á sviði rannsóknarblaðamennsku en hún væri hins vegar frábær fréttalesari.
Í færslunni segir Sigríður Dögg að samkvæmt könnun Blaðamannafélagsins upplifa konur innan blaðamannastéttarinnar mun meira álag í starfi en karlar og óttast þær í miklu meira mæli um starfsöryggi sitt.
„Ríkisútvarpið á ekki að láta það óátalið að yfirmaður tali til undirmanns síns af lítilsvirðingu gagnvart konum, miðað við þá upplifun sem María Sigrún Hilmarsdóttir hefur lýst opinberlega síðustu daga.
Þá skiptir engu máli hver ástæðan fyrir ágreiningnum er. Ekki aðeins er RÚV stærsti fjölmiðill landsins, heldur er hann í ríkiseigu, og á að vera til fyrirmyndar - og lítilsvirðing gagnvart konum á ekki að líðast, hvorki þar né annars staðar.“
Sigríður bendir á að þó að jafnrétti mælist mest á Íslandi af öllum löndum þá halli víða enn á konur, og ekki síst í fjölmiðlum. Fjölmiðlum landsins er flestum enn stýrt af körlum.
Hún tekur þá fram að á Ríkisútvarpinu séu karlar í nær öllum stjórnunarstöðum.
„Við, sem samfélag, megum aldrei hætta að benda á það sem gera má betur. RÚV - gerið betur.“