Enginn þingmaður Vinstrihreyfingar – græns framboðs myndi komast á þing ef gengið yrði til kosninga í dag, miðað við niðurstöður nýs Þjóðarpúls Gallup sem gerður var í apríl.
Ríkisútvarpið greinir frá niðurstöðunum en þar kemur fram að Fylgi Vinstri grænna mælist 4,4% en fylgi flokksins hefur aldrei mæst minna í könnun Gallup.
Samfylkingin mælist áfram með mest fylgi í þjóðarpúlsinum, nú með 29,7% en í síðasta mánuði mældist fylgi flokksins 30,9%.
Framsóknarflokkurinn bætir við sig milli mánaða. Í síðasta mánuði mældist fylgi flokksins 7,3% en er nú 8,8%. Flokkur fólksins eykur einnig fylgi sitt milli mánaða. Flokkurinn mælist nú með 7,2% en var með 6,2% í síðasta mánuði.
Aðrir flokkar eru með svipað fylgi á milli kannana. Sjálfstæðisflokkur mælist með 18% fylgi. Miðflokkurinn með 12,8% og Píratar með 8,2%.
7,5% kjósenda styðja Viðreisn og 3,4% styðja Sósíalistaflokkinn.
Stuðningur við ríkisstjórnina hefur dregist saman. Í síðasta mánuði var stuðningurinn 33% en mælist nú 30%.