Andrés Magnússon
Greinilegt er að Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri sækir sér fylgi í nokkuð mismunandi hópa miðað við skoðanakönnun Prósents fyrir Morgunblaðið, sem birt var í gær.
Samkvæmt henni nýtur hún nú fylgis 28,5%, með nokkuð breiðum vikmörkum þó. Fylgið er á mikilli hreyfingu og það má líka sjá þegar svarendur eru greindir í hópa, eftir aldri, stjórnmálaskoðun og þess háttar, þótt slá verði varnagla um að í einstökum hópum geti afar fá svör legið að baki.
Á meðan Katrín Jakobsdóttur nýtur hnífjafns fylgis karla og kvenna eru karlar mun líklegri til að styðja Höllu en konur, en á móti halla konur sér fremur að Baldri en karlar. Þá sækir Jón Gnarr lungann úr sínu fylgi til ungra karla.
Ekki er verulegur munur á afstöðu fólks eftir búsetu, nema hvað Halla Hrund nýtur þriðjungi minna fylgis í Reykjavík en utan höfuðborgarinnar. Það er vel marktækt.
Þá má nefna að flestir frambjóðendur njóta svipaðs fylgis fólks óháð menntun, nema Halla Hrund, sem af einhverjum ástæðum virðist höfða mun meira til iðnaðarmanna en aðrir.
Ef litið er á tekjuhópa nýtur Halla Hrund aukins stuðnings í beinu samhengi við auknar launatekjur, en hjá Baldri er því öfugt farið. Tekjur hafa lítið að segja um stuðning við Katrínu og Jón.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.