Samtökin ‘78, hagsmunafélag hinsegin fólks á Íslandi, hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna opinberrar umræðu um forsetaframbjóðendur. Í yfirlýsingunni harma samtökin að einkalíf fyrsta opinberlega hinsegin forsetaframbjóðandans sé gert að aðalatriði í samtölum og umfjöllun.
Bjarndís Tómasdóttir, formaður Samtakanna ‘78, segir samtökin hafa fylgst grannt með umræðunni og vilja þau vekja athygli á því að hún sé ekki í lagi.
„Við vonuðum auðvitað að umræðan færi ekki á þetta stig en við vorum þess viðbúin vegna þess hvernig samfélagsumræðan hefur verið að breytast síðustu ár og hvað fólk hefur leyft sér að segja alls konar rætna og ljóta hluti opinberlega,“ segir Bjarndís í samtali við mbl.is.
Í tilkynningu frá Samtökunum segir að í vor hafi stigið í fyrsta sinn fram opinberlega hinsegin frambjóðandi til forseta Íslands. Það séu söguleg tíðindi enda hefði það verið óhugsandi fyrir aðeins fáum árum og væri enn, ef ekki væri fyrir þrotlausa baráttu síðustu áratuga fyrir réttlátara samfélagi.
„Það er stórt skref og til marks um það hversu langt við höfum náð í réttindabaráttunni, en meginmarkmið Samtakanna ‘78 er að hinsegin fólk sé sýnilegt og viðurkennt og njóti fyllstu réttinda á öllum sviðum samfélagsins.
Hinsegin fólk þekkir vel að vera smættað niður í einkalíf sitt og að það sé gert að aðalatriði í samtölum sem ættu að snúast um allt annað. Slík framkoma ber vott um fordómafull viðhorf, hvort sem fólk áttar sig á því eða ekki.“
Samtökin segja það eru mikil vonbrigði að sjá bæði almenna kjósendur og jafnvel fjölmiðlafólk gera lítið úr hæfni Baldurs Þórhallssonar til þess að gegna embætti forseta Íslands á grundvelli þess að hann er hommi.
„Stjórn Samtakanna ‘78 hvetur íslenskt samfélag í heild sinni til að halda sig við málefnalega umfjöllun í aðdraganda forsetakosninga og falla ekki í þá gryfju að gera einkalíf frambjóðenda að aðalatriði.“