„Við höfum ákveðna reynslu og þekkingu sem tekur mið af því sem sagan segir okkur og langlíklegast er að það bæti í gosið þar sem það er nú. Allt tal um að gos geti komi upp hvar sem er, finnst mér vera alrangt,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði.
Fram hefur komið á mbl.is, bæði í samtali við Benendikt G. Ófeigsson, jarðeðlisfræðing hjá Veðurstofu Íslands, og Pál Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði, að það hafi ekki sést áður, að eldgos og landris séu á sama tíma og að talsverð óvissa sé uppi um hvað geti gerst næst.
Haft var eftir Benedikt að hann hefði mestar áhyggjur af að upp kæmi eldgos út frá núverandi gosi. Tveggja til þriggja kílómetra löng sprunga gæti opnast með litlum fyrirvara sem gæti skapað talsverða hættu og engin leið væri að vara nógu tímanlega við því.
Páll telur forsendur fyrir tveimur gosum á sama tíma enda í fyrsta skipti sem land rís undir yfirstandandi gosi. Hann segir þróunina benda til þess að kvikukerfið líti ekki alveg eins út og sérfræðingar hafi hingað til talið sig vita.
„Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona. Það er engin reynsla til þess að byggja á um það hvað þetta kann að þýða upp á framtíðina,“ sagði Páll. Hann segir slíka hegðun í rótum jarðar hvorki hafa sést áður á Íslandi né í öðru landi.
Þorvaldur er á öðru máli og bendir á að ekki sé von á nýju gosi á öðrum stað heldur bæti frekar í þetta sem nú er í gangi við Sundhnúkagíg.
„Þetta er allt samtengt. Við erum með gosrás sem er núna í gangi og kemur úr dýpra kvikuforðabúri og hluti af því fer inn í þetta grynnra kvikuhólf undir Svartsengi á 4-5 kílómetra dýpi sem leitar upp. Núna virðist þetta grynnra kvikuhólf vera að fyllast og vera komið að þolmörkum. Hvað gerist þá?“ spyr Þorvaldur.
„Ein sviðsmyndin er þannig og ég hef líkt henni við pípulögn. Ef þú sérð fyrir þér vatn streyma inn í stóran tank þar sem þrýstingurinn er meiri en tankurinn ber, þá finnur vatnið sér aðra leið og brýst fram þar. Ef það gerist og kvikan brýtur sér leið beint upp þá bætist eitthvað í gosið, tvöfaldast kannski og fer úr þremur upp í sex rúmmetra á sekúndu, þá myndi landris stoppa því þá hættir að bætast við grynnra kvikuhólfið,“ segir hann.
„Önnur sviðsmynd er sú að grynnra hólfið fyllist og flæðið komi beint upp og við það tæmist grynnra hólfið og kvikan úr því streymi inn í gosrásina, þá myndi það verða viðbót við aukninguna. Ef það gerist myndum við sjá landsig við Svartsengi. Við getum nú fylgst með næstu dagana eða vikurnar hvor sviðsmyndin sé réttari.“
Lögreglan á Suðurnesjum hefur biðlað til fólks að fara ekki fótgangandi að eldgosinu við Sundhnúkagíga. Ný gossprunga gæti opnast á hverri stundu eða kraftur eldgossins orðið meiri.
Þorvaldi er bent á að það sem kemur fram hjá honum rími nú ekki beinlínis við það sem kemur fram hjá Veðurstofunni.
„Nei það rímar engan veginn. Kvikan leitar alltaf auðveldustu leiðar til yfirborðs. Eins og staðan er núna er minnst fyrirstaða í þeirri gosrás sem er opin, þótt við getum aldrei útilokað neitt, en þetta er langlíklegast og kannski er verið að ofgera hættunni. Ef það bætist í núverandi gos þá getur gígurinn stækkað eða gossprungan sem viðheldur honum lengst, hvort sem það yrði til suðurs eða norðurs.“
En hverju á þá almenningur að trúa þegar skilaboðin eru misvísandi?
„Það er ákveðinn munur á sýn og túlkun á jarðfræðinga og jarðeðlisfræðinga á eldsumbrotum. Munurinn á jarðfræði og jarðeðlisfræði er sá að jarðfræðin tekur til lengri tímaskala, horfir aftur í tímann og notar söguna á meðan jarðeðlisfræðin vinnur í nútímanum. Þarna er stór munur á sýn og túlkun.
Við þurfum að taka mið af því sem sagan segir okkur og nýta þá þekkingu og reynslu sem til er. Gosin eru bundin við ákveðnar goslínur og þau endurtaka sig á þessum goslínum, ekki bara á stutta tímaskalanum heldur líka á langa tímaskalanum. Allt tal um að gos geti komi upp hvar sem er, finnst mér vera alrangt og stemmir engan veginn við okkar þekkingu á eldgosasögu svæðisins,“ segir Þorvaldur Þórðarson, doktor í eldfjallafræði, að lokum.