Fyrirtækjum ráðlagt að halda sig frá Eurovision

Minna hefur selst af auglýsingum í Eurovision en á sama …
Minna hefur selst af auglýsingum í Eurovision en á sama tíma í fyrra. Samsett mynd

Mun færri auglýsingar hafa verið seldar í Eurovision heldur en á sama tíma undanfarin ár. Virðast fyrirtækin hikandi við að tengja sig við þá neikvæðu umfjöllun sem hefur verið í kringum keppnina sem á rætur sínar að rekja til átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs og veru Ísraels í keppninni.

Birtingahús hafa ráðlagt viðskiptavinum að íhuga það vel áður en fyrirtæki ákveða að birta auglýsingar í keppninni. Eitt þeirra birtingahúsa sem mbl.is ræddi við segir að hið eldfima ástand sem ríkir vegna stríðs á Gasasvæðinu vera undirlag þess að fyrirtækjum sé ekki ráðlagt að auglýsa í keppninni.  

Einar Logi Vignisson, auglýsingastjóri RÚV, segir greinilegt að umræðan um Eurovision hafi áhrif á auglýsingasöluna.

Umræðan verið neikvæð 

„Við finnum fyrir því að það eru færri sem hafa pantað auglýsingapláss en á sama tímapunkti fyrri ár,“ segir Einar.

Ein­ar Logi Vign­is­son.
Ein­ar Logi Vign­is­son.

Hann bendir þó á að sölumenn á RÚV viti kannski ekki nákvæmlega um ástæðuna en mestar líkur séu á því að neikvæð umræða hafi áhrif.

„Sú umræða sem verið hefur burt séð frá pólitíkinni hefur verið neikvæð,“ segir Einar Logi.

Vilja ekki inn á jarðsprengjusvæði

Stórfyrirtæki eru gjarnan á þjónustuð af birtingahúsum sem veita fyrirtækjum ráðleggingar um auglýsingabirtingar. Mbl.is ræddi við þrjú þeirra um málið.  

Högni Valur Högnason, einn eigenda hjá auglýsingastofunni Hér og Nú, sem ráðleggur jafnframt fyrirtækjum um birtingar auglýsinga segir að fyrirtækjum hafi verið ráðlagt að halda sig frá auglýsingabirtingum í keppninni. Jafnvel þó um sé að ræða eitt vinsælasta auglýsingapláss ársins í sögulegu samhengi.  

Högni Valur Högnason
Högni Valur Högnason

„Í ljósi aðstæðna, að lagahöfundur framlags Íslendinga sé búin að segja sig frá laginu, Gísli Marteinn muni ekki lýsa beinni útsendingu og Felix sagt sig frá að stýra þætti á RÚV um keppnina, ásamt almennt eldfimri umræðu ætti það ekki að koma á óvart að þetta er mjög umdeildur viðburður í ár,“ segir Högni í skriflegu svari til mbl.is.

„Í stað þess að taka afstöðu með Eurovision og fara inn á það jarðsprengjusvæði sem er stríðsrekstur Ísraelsmanna á Gaza er, þá höfum við klárlega ráðið ákveðnum aðilum að leita annarra leiða að koma sínu efni á framfæri. Eins og er hefur enginn okkar viðskiptavina bókað birtingar í Eurovison. En á endanum er það val viðskiptavinarins,“ segir Högni.

Minni áhugi í ár 

Ívar Gestsson, framkvæmdastjóri Birtingahússins, segir að svo virðist sem minni áhugi sé á Eurovison en árin á undan. „Þetta hefur alla jafna verið einn af hápunktum ársins hvað varðar auglýsingatíma,“ segir Ívar.

Sekúndan kostar 22 þúsund krónur samkvæmt verðskrá RÚV. Þó það kunni að hljóma dýrt hefur hefur gjarnan verið slegist um að komast í auglýsingaplássin.

„Það er mun minni stemning fyrir þessu en undanfarin ár. Þetta er mjög dýrt auglýsingapláss og því eru fyrirtækin kannski ekkert að stökkva á þetta í ljósi stöðunnar,“ segir Ívar.

Ívar Gestsson
Ívar Gestsson

Minna um dýrar auglýsingar

Jóhannes Karl Sigursteinsson, birtingastjóri hjá Ennemm, segir að ólíkt mörgum öðrum hafi fyrirtækið ekki endilega ráðlagt sínum fyrirtækjum að auglýsa í Eurovision í gegnum árin. Plássið sé dýrt og henti ekki öllum.

„Það er ekki okkar birtingaaðilanna að segja hver birtingastefna fyrirtækjanna er. Heilt yfir höfum við ekki orðið vör við að fyrirtækin vilji ekki vera með af pólitískum ástæðum en við erum meðvituð um umræðuna núna,“ segir Jóhannes.

Hann segist hins vegar hafa orðið var við að minna sé framleitt af sjónvarpsauglýsingum en áður. Fyrirtæki hafa gjarnan haft þann háttinn á að frumsýna þær í Eurovision. 

„Það getur komið til sökum þess að fyrirtækin hafa ákveðið að gera ekki dýrar auglýsingar vegna þess að ástandið er eins og það er,“ segir Jóhannes Karl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert