Skimað fyrir kíghósta meðal leikara

Veikindi hafa komið upp meðal leikara og því hefur verið …
Veikindi hafa komið upp meðal leikara og því hefur verið tekin ákvörðun um að fresta sýningum. mbl.is/Sigurður Bogi

Skimað hefur verið fyrir kíghóstasmiti meðal leikara í Leikfélagi Sauðárkróks. Um er að ræða varúðarráðstöfun vegna fjölgunar í kíghóstasmitum á landinu. 

Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir formaður leikfélagsins segir í samtali við mbl.is að leikkona í hópnum hafi veikst mikið og í kjölfarið hafi verið tekin ákvörðun um að rannsaka hvort um kíghósta sé að ræða. 

Fleiri leikarar slappir

Spurð hvers vegna grunur um kíghósta hafi komið upp segir Sigurlaug að veikindi leikkonunnar hafi lýst sér í þurrum hósta og hita. Ljóst var að um einhvers konar veirusýkingu væri að ræða. 

Viðkomandi er bólusett og ekki er búið að staðfesta kíghóstasmit en málið er unnið í samstarfi Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Leikkonan er á batavegi.

Fleiri í leikarahópnum eru veikir, segir Sigurlaug. Fyrst hafi leikkonan veikst og í kjölfarið varð meðleikari hennar slappur. Nú eru nokkrir leikarar í hópnum með hita en ekki er vitað um frekari einkenni þeirra. 

Sigurlaug bætir við að ekki sé alveg vitað hvaða smit er í gangi en niðurstaða úr rannsóknum sé væntanleg á næstu dögum. 

Stíga á svið um leið og heilsa leyfir

Leikfélag Sauðárkróks hefur unnið að uppsetningu Litlu hryllingsbúðarinnar undanfarnar vikur og átti að frumsýna verkið síðasta sunnudag. Tekin hefur verið ákvörðun um að fresta sýningum um óákveðinn tíma vegna veikindanna. 

Sigurlaug segir að planið sé að hefja sýningar um leið og heilsa leikara leyfi. Nú sé einfaldlega verið að taka stöðuna frá degi til dags og koma verði í ljós hvenær sýningar geti hafist. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert