Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra kveðst engar upplýsingar hafa um það hvers vegna þáverandi orkumálastjóri, Halla Hrund Logadóttir, „hafi ákveðið að ráða samskiptastjóra í verktöku en ekki sem almennan starfsmann ríkisins [því] fellur það í hlut forstöðumannsins að svara fyrir það hvernig ráðning hans sem verktaka samrýmist lögum.“
Karen Kjartansdóttir, samskiptastjóri Orkustofnunar (OS), fór í leyfi fyrir viku, en hún hefur samhliða þeim störfum verið í innsta hring forsetaframboðs Höllu Hrundar.
Líkt og greint hefur verið frá þá hefur Karen fengið greiddar 12.764.265 krónur fyrir þau störf síðan samningur var um það gerður í fyrravor án auglýsingar eða útboðs.
Fjármálaráðherra segir í svari til Morgunblaðsins að hjá ríkinu sé það „meginregla að starfsfólk ríkisins er almennt skipað, sett eða ráðið í þjónustu ríkisins,“ líkt og mælt sé fyrir um í 1. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ráðningarsamband milli aðila sé meginregla í samskiptum starfsfólks og vinnuveitanda.
Reglan er sú að ríkið ráði fólk til slíkra starfa í fulla vinnu, en verktöku ekki beitt nema í þeim mun afmarkaðri verkefni og þá til mun skemmri tíma. Samskiptastjóra OS er hins vegar að finna í skipuriti stofnunarinnar, en hann starfar að sögn stofnunarinnar á ábyrgð orkumálastjóra.
Sigurður leggur ekki dóm á það hvort eðlilegt sé að samskiptastjóri OS sé verktaki, það geti eftir atvikum rúmast innan heimilda laga, en það sé á ábyrgð orkumálastjóra að stofnunin starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf.