Baldur efstur í óformlegri könnun ungmenna

Ljósmynd/Aðsend

Baldur Þórhallsson hlaut flest atkvæði á meðal ungmenna í óformlegri könnun á fundi Landssambands ungmennafélaga í Iðnó. Halla Tómasdóttir kom þar skammt á eftir, en Landssambandið stóð fyrir pallborðsumræðum með forsetaframbjóðendum fyrir ungmenni í gær.

Á fundinum var könnun gerð á meðal fundargesta um hvern þau töldu sig líklegust til að kjósa. Aðeins fimm valkostir voru í boði en valið stóð á milli Baldurs Þórhallssonar, Höllu Hrundar Logadóttur, Höllu Tómasdóttur, Jóns Gnarr og Katrínar Jakobsdóttur

Baldur Þórhallsson hlaut flest atkvæði eða 28,8%, þar á eftir kom Halla Tómasdóttir með 26,9% atkvæða, Jón Gnarr fékk 18,3% atkvæða og Katrín Jakobsdóttir fékk 11,5% atkvæða. Halla Hrund fékk fæst atkvæði eða 10,6%

Markmiðið með viðburðinum var að vekja lýðræðisvitund ungs fólks og hvetja þau til að nýta kosningarétt sinn.

Fengu ekki svör frá framboði Katrínar

Öllum þeim fimm frambjóðendum sem hafa mælst með mestan stuðning í skoðanakönnunum var boðið í pallborðsumræðurnar en aðeins fjórir frambjóðendur voru viðstaddir, það voru þau Baldur Þórhallsson, Halla Hrund Logadóttir, Halla Tómasdóttir og Jón Gnarr.

Í samtali við mbl.is segir Sylvía Martinsdóttir, forseti Landssambands ungmennafélaga, að Katrínu Jakobsdóttur hafi verið boðið að mæta, en þau hafi ekki fengið svör frá framboði hennar. Landssambandinu hefur þó borist formleg afsökunarbeiðni frá framboði Katrínar og segir þar að ástæða þess að erindið fór fram hjá framboðinu hafi verið vegna mannlegra mistaka.

„Ekki eigi að gera þátttöku sjálfboðaliða tortryggilega“

Frambjóðendurnir fengu spurningar sem leiðtogaráð Landssamband ungmennafélaga sá um að semja. Þá var Halla Hrund meðal annars spurð nánar útí fyrrverandi verktaka hjá Orkustofnun sem starfa nú í kosningateymi hennar.

„Hvernig stendur á að verktakar sem þú réðir til starfa sem orkumálastjóri, án þess að þau væru sérstaklega auglýst, starfa nú í kosningateymi þínu?“

„Það sem ég held að þú sért að spyrja sé hvort að fólk sem hafi unnið hjá Orkustofnun eða kynnst mér annars staðar hafi fengið greitt frá Orkustofnun fyrir að vinna í kosningabaráttunni. Það væri að sjálfsögðu mjög óeðlilegt og myndi aldrei koma fyrir. En í þessu tilfelli sem ég held að þú ert að vísa í, þá er viðkomandi aðili að vinna fyrir Orkustofnun og klárar þau verkefni, sinnir þeim, og hefur unnið í sjálfboðavinnu við mitt framboð.

Halla Hrund bætti við að ekki eigi að gera þátttöku sjálfboðaliða í framboðum tortryggilega, og hluti að lýðræðislegri þátttöku sé að almenningur fái að taka þátt.

Ungmenni fylltu Iðnó.
Ungmenni fylltu Iðnó. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert