Fannst látinn í klefa á Litla-Hrauni

Karlmaður um þrítugt fannst í gærmorgun látinn í klefa sínum á Litla-Hrauni.

Ekki er talið að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti, að því er kemur fram í tilkynningu frá Afstöðu, félagi fanga og annars áhugafólks um bætt fangelsismál og betrun.

Félagið hvetur stjórnvöld til þess að stjórnvöld „vakni af værum blundi og geri eitthvað í fangelsismálum”. Er þar sérstaklega bent á geðheilbrigði fólks sem sætir frelsissviptingu.

„Umræddur maður hafði lokið afplánun fangelsisdóms að því marki að hann var laus á reynslulausn en meginregla um skilyrði til reynslulausnar er að viðkomandi brjóti ekki af sér á tímabilinu. Þar vandast málið því svo virðist sem oftar en ekki þurfi eingöngu ásökun til þess að reynslulausn sé rofin og viðkomandi er færður aftur til afplánunar,” segir í tilkynningunni.

Frá Litla-Hrauni.
Frá Litla-Hrauni. mbl.is/Árni Sæberg

„Það að vera sviptur frelsi með þeim hætti, án dóms eða yfirleitt sönnunarfærslu, er gríðarlega þungbært og ætti fólk í þeirri stöðu að vera undir eftirliti sérfræðinga í geðheilbrigði og sálgæslu.”

Félagið segist ætla að taka málið beint upp við dómsmálaráðherra en hvetur einnig félagsmála- og heilbrigðisráðherra til að bregðast við til að fleiri líf tapist ekki með þessum hætti.

„Hugur stjórnarmanna Afstöðu er hjá aðstandendum hins látna sem og hjá samföngum og fangavörðum,” segir jafnframt í tilkynningunni.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert