„Farnir að halda verðbólgunni uppi“

Finn­björn A. Her­manns­son, for­seti ASÍ.
Finn­björn A. Her­manns­son, for­seti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir að ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að halda óbreyttum stýrivöxtum fari ekki vel í sig. 

„Ég reiknaði með því að Seðlabankinn mundi styðja stefnuna sem við vorum að móta í kjarasamningum og lækka vextina,“ segir Finnbjörn við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hans um ákvörðun peningastefnunefndarinnar.

Finnbjörn segir að það liggi alveg fyrir að stýrivextirnir séu farnir að halda verðbólgunni uppi en hún mældist 6 prósent í síðasta mánuði.

„Ég óttast að peningastefnunefndin sé farin að ýta undir með þeim sem eru að dæla hækkunum út í verðlagið og væntingastjórnunin sé í öfuga átt við það sem ég hefði vonað að hún hefð verið með. Ef vextir hefðu verið lækkaðir þá tryði peningastefnunefndin á þessa stefnu sem við erum að feta,“ segir Finnbjörn.

Fiinbjörn segir að ákvörðun peningastefnunefndarinnar sé mikið högg fyrir íslensk heimili og fyrirtæki í landinu.

„Þetta voru ekki góð skilaboð frá Seðlabankanum og ég mjög ósáttur með þessa ákvörðun eins og megin þorri þjóðarinnar hlýtur líka að vera það. Þetta er högg fyrir heimilin í landinu og fyrirtækin,“ segir Finnbjörn en miðstjórn Alþýðusambandsins mun funda í dag um þessi mál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert