Ömurlegt að ráðist sé gegn fjölskyldum blaðamanna

Formaður blaðamannafélagsins segir ömurlegt að ráðist sé gegn fjölskyldum blaðamanna …
Formaður blaðamannafélagsins segir ömurlegt að ráðist sé gegn fjölskyldum blaðamanna eins og í tilfelli Stefáns. Samsett mynd

Formaður Blaðamannafélags Íslands segir það algjörlega ólíðandi að sótt sé að blaðamönnum og fjölskyldum þeirra vegna umfjöllunar þeirra, eins og gerst hefur við Stefán Einar Stefánsson, blaðamann Morgunblaðsins og þáttstjórnanda Spursmála á mbl.is.

„Það er algjörlega ólíðandi að sótt sé að blaðamönnum vegna umfjöllunar þeirra. Enn ömurlegra er að sjá þegar ráðist er gegn fjölskyldum blaðamanna, líkt og þarna er gert,“ segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, á Facebook.

Fékk skilaboð í kjölfar þáttarins

Síðastliðinn föstudag var forsetaframbjóðandinn Halla Hrund Logadóttir gestur í Spursmálum og spurði Stefán hana krefjandi spurninga eins og aðra forsetaframbjóðendur í fyrri þáttum.

Vakti þátturinn athygli en í kjölfarið fór Stefáni að berast skilaboð og athugasemdir á samfélagsmiðlum þar sem meðal annars var vegið að fjölskyldu hans.

„Heiftin og hatrið í samfélagsumræðunni í dag er mikið áhyggjuefni. Blaðamenn eiga ekki að þurfa að starfa við þær aðstæður að mislíki fólki umfjöllun þeirra ráðist það að þeim með óvægnum og ómálefnalegum hætti. Það væri óskandi að þau sem hafa eitthvað við umfjöllun blaðamanna að athuga leitaði úrlausna á umkvörtunarefni sínu eftir þartilbærum leiðum,“ segir Sigríður í færslunni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert