Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Þórólfur Guðnason, fyrrverandi sóttvarnalæknir, hafa allir lýst opinberlega yfir stuðningi við Katrínu Jakobsdóttur í embætti forseta Íslands.
Eiga allir þessir menn það sameiginlegt að hafa unnið náið með Katrínu þegar hún var forsætisráðherra og heimsfaraldur kórónuveiru geisaði.
Á Facebook-síðunni „Stuðningur við Katrínu“ birtust stuðningsmyndbönd frá þremenningunum og segir Víðir í sínu myndskeiði að Katrín Jakobsdóttir hafi undanfarin ár ítrekað leitt þjóðina í gegnum hamfarir og áföll.
„Hún fær ólíkt fólk til að vinna saman og leysa verkefnin. Það eru viðsjárverðir tímar og Ísland þarf forseta með sterka rödd sem hlustað er á. Forseta sem getur sameinað okkur á erfiðum tímum, glaðst með okkur á góðum stundum og komið fram fyrir hönd þjóðarinnar með sóma. Þess vegna kýs ég Katrínu Jakobsdóttur,“ segir Víðir.
Þórólfur Guðnason segir að Katrín hafi leitt þjóðina í gegnum heimsfaraldurinn af mikilli stillingu og hugviti. Þá hafi hún sameinað þjóðina í baráttunni við veiruna.
„Við þurfum á Bessastaði forseta sem er ekki bara fulltrúi okkar allra þegar vel gengur, heldur getur líkað sameinað okkur þegar þörf krefur. Katrín hefur sýnt að hún er vel til þess fallin. Þess vegna kýs ég hana,“ sagði Þórólfur.
Kári Stefánsson flutti nær alveg eins stuðningsyfirlýsingu og Þórólfur og kvaðst einnig ætla að kjósa hana.