„Þetta er mjög mikilvægt mál fyrir okkur,“ segir Hildur Þórisdóttir, starfandi forstjóri Lyfju, um þann drátt sem verður á veitingu starfsleyfa til nýútskrifaðra lyfjafræðinga í sumar. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), sagði við Morgunblaðið í gær að drátturinn gæti leitt til þess að loka þyrfti apótekum, einkum á landsbyggðinni, yfir sumartímann.
Apótekin hafa undanfarin ár treyst á að nýútskrifaðir lyfjafræðingar geti komið til starfa strax að námi loknu, eða í lok maí. Í ár hefur útskrift Háskóla Íslands verið flýtt til 15. júní og því fylgir álag á nemendaskrá skólans, sem segir að ekki sé hægt að gefa fyrr út staðfestingu á námslokum, eins og hingað til, heldur verði að bíða eftir formlegri útskrift. Þá fyrst geti fólk sóst eftir starfsleyfi hjá landlækni. Því stefnir í að útskriftarnemar geti ekki hafið störf sem lyfjafræðingar fyrr en í fyrsta lagi í byrjun júlí.
Hjá Lyfju starfar stór hópur lyfjafræðinga sem þurfa að komast í sumarfrí. Af þeim 25 sem útskrifast sem lyfjafræðingar í ár munu níu taka að sér afleysingar hjá fyrirtækinu í sumar. Hildur segir að geti viðkomandi ekki hafið störf fyrr en í byrjun júlí styttist sumarleyfistímabil starfandi lyfjafræðinga Lyfju um rúman mánuð. „Þetta setur okkar sumarplön algjörlega á hliðina,“ segir hún.
Hildur segir að ekki sé byrjað að endurskoða sumarplönin þar sem enn sé vonast til þess að málið leysist. „En við þurfum að fara í það fljótlega ef við fáum engin viðbrögð. Skipuleggja hlutina upp á nýtt og í versta falli skerða þjónustu.“
Hún segir þetta koma niður á starfsskilyrðum lyfjafræðinga. „Ef þetta verður svona næstu ár sjáum við fram á að sumarleyfistímabilið styttist gríðarlega hjá okkur, sem er ekki boðlegt fyrir lyfjafræðingana okkar.“
Lyfja hafi bæði haft samband við heilbrigðisráðuneytið vegna málsins og embætti landlæknis. Ekki hafi fengist nein viðbrögð frá embætti landlæknis en samkvæmt svörum ráðuneytisins til SVÞ verði ekki brugðist við stöðunni í sumar. „En við vonumst auðvitað til að heilbrigðisyfirvöld átti sig á alvarleika málsins.“