„Barátta fram á síðasta dag“

Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi.
Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi. mbl.is/María

„Ég hef sagt áður að ég telji að það verði áfram sviptingar og mér sýnist það alveg vera að ganga eftir.“

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi við mbl.is innt eftir viðbrögðum við nýjustu skoðanakönnun Prósents fyrir Morgunblaðið.

Fylgi Katrínar hefur aðeins dalað frá síðustu könnun. Hún mælist með 19,2 prósenta fylgi en var með 21,3 prósent í liðinni viku. Halla Hrund Logadóttir mælist með mesta fylgi í könnuninni eða 26 prósent en hún var með 30 prósent í síðustu könnun.

Fylgi Baldurs Þórhallssonar og Jóns Gnarr er á niðurleið á meðan fylgi Höllu Tómasdóttur meira en tvöfaldast, fer úr 5,1 prósenti upp í 12,5 prósent.

Verður áfram spennandi barátta

„Þetta verður áfram spennandi barátta og ég er bara bjartsýn á framhaldið. Ég hef fengið virkilega góðar móttökur hvar sem ég hef komið,“ segir Katrín, sem eyddi deginum á Vestfjörðum í dag. Stóð hún fyrir fundi á Ísafirði í kvöld sem var afar vel sóttur að hennar sögn.

Spurð hvort hún þurfi ekki að bæta í miðað við að fylgi hennar í könnun Prósents sé innan við 20 prósent segir hún:

„Jú að sjálfsögðu. Núna eru tæpar þrjár vikur í kosningarnar og ég reikna með að mörg séu að gera upp hug sinn á næstu dögum,“ segir Katrín.

Katrín segir að það séu sviptingar á milli kannanna og það komi óvænt tíðindi nánast í hverri könnun sem líti dagsins ljós og fylgið sé á mikilli hreyfingu.

Mikill áhugi á kosningunum

„Ég held að þetta verði barátta fram á síðasta dag og kosningabaráttan verður spennandi. Það er mikill áhugi á kosningunum og það sést best á mikilli fundasókn. Fólk mætir til að spyrja mann spjörunum úr og gera upp hug sinn,“ segir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert