Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir að liðið gætu nokkrar vikur eða mánuðir þar til næsti atburður eigi sér stað við Sundhnúkagíga.
„Það er allt í rólegheitunum sem stendur en það er verið að gera klárt í næsta gos, hvenær sem það verður,“ segir Ármann við mbl.is.
Gosinu við Sundhnúkagíga lauk 9. maí en það hafði þá staðið yfir frá 16. mars. Vísindamenn Veðurstofu hafa sagt auknar líkur á kvikuhlaupi og enn öðru gosi en kvikusöfnun hefur haldið áfram undir Svartsengi og rís land þar með sama hraða og áður.
„Á meðan landrisið heldur áfram þá er kvika að koma í efri lög jarðskorpunnar og þá er er bara spurning hvenær er komið nóg til að kvika komi upp á yfirborðið. Það getur enn þá tekið nokkrar vikur eða mánuði,“ segir Ármann.
Ármann segir að skjálftahrina komi í aðdraganda gossins sem gefi til kynna hvenær atburðurinn fari af stað. Hann segist ekki lesa annað úr gögnum frá Veðurstofunni en að kvikan renni hægara inn heldur en hún hafi gert.
Í fyrri kvikuhlaupum og eldgosum hafa um 8 til 13 milljónir rúmmetra bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi milli atburða áður en kvikan hleypur úr kvikuhólfinu og undir gígaröðina.
Mælingar sýna að magn kviku sem hefur bæst við frá því gosið hófst 16. mars er komið upp fyrir efri mörkin.
„Kvikumagnið er orðið miklu meira nú en fyrir síðustu gos. Það er líka eðlilegt því þegar það dælist inn trekk í trekk þá stækkar geymsluhólfið hægt og rólega og getur tekið við meira magni.“
Ármann segir að breyting hafi orðið í síðasta gosi. Það hafi staðið lengur yfir heldur en hin gosin sem þýði að það sé einhver breyting í gangi í kerfinu.
Telur þú að næsta gos á Sundhnúkagígaröðinni verði síðasti atburðurinn á því svæði?
„Mögulega verður þetta síðasta gosið á þessu svæði og þetta fari að mjaka sér eitthvað vestur á bóginn. Ég vona að svo verði og þetta færi sig út í Eldvörpin. Það er þægilegra að fá gos þar upp. Þar er flatara land og minna undir en þar sem það hefur verið.“