Ráðuneytið komst að yfirlýsingunni í fjölmiðlum

Cecilia Nicolini, loftslagsráðherra Argentínu og Halla Hrund Logadóttir undirrita viljayfirlýsingu …
Cecilia Nicolini, loftslagsráðherra Argentínu og Halla Hrund Logadóttir undirrita viljayfirlýsingu sem hvorki utanríkisráðuneytið né umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið voru upplýst um. Ljósmynd/Aðsend

Hvorki umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið né utanríkisráðuneytið vissi af áætlun Höllu Hrundar Logadóttur orkumálastjóra, sem nú er í leyfi vegna forsetaframboðs, um að hún myndi skrifa undir viljayfirlýsingu fyrir hönd Íslands við ráðherra loftslagsmála, sjálfbærrar þróunar og nýsköpunar í Argentínu á síðasta ári.

„Í tilviki ferðar orkumálastjóra til Argentínu þá lá ekki fyrir samþykki ráðuneytisins og hafði ráðuneytið ekki vitneskju um fundina fyrr en við lestur frétta í fjölmiðlum eftir lok ferðar. Brýnt er virt sé að samþykki ráðuneytisins þurfi ef orkumálastjóri fyrirhugar að eiga fundi með ráðherrum erlendra ríkja.“

Þetta segir meðal annars í bréfi sem Stefán Guðmundsson, ráðuneytisstjóri umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytisins, og Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, skrifstofustjóri sama ráðuneytis, sendu á Höllu þann 28. júní í fyrra.

Ríkisútvarpið greindi fyrst frá bréfi ráðuneytisstjóra.

Hlutverk ráðuneyta að annast samskipti við erlend ráðuneyti

Fram kemur í bréfinu, sem mbl.is hefur undir höndum, að það sé hlutverk ráðuneyta að annast samskipti við ráðuneyti erlendra ríkja og taka ákvarðanir um viljayfirlýsingar er lúta að samstarfi við erlendar þjóðir.

„Hið sama á við um undirritun viljayfirlýsinga við erlend ríki, en eins og áður sagði kemur það almennt í hlut ráðherra að undirrita slík skjöl. Ráðuneytið og ráðherra leggja áherslu á mikilvægi þess að þessu sé ætið framfylgt.“

Ráðuneytisstjóri fundaði sérstaklega með Höllu vegna ferðarinnar til Argentínu

Var bréfið sent á Höllu í kjölfar fundar sem Stefán Guðmundsson ráðuneytisstjóri átti með Höllu eftir ferðina. Í bréfinu segir: „Vísað er til fundar ráðuneytisstjóra með orkumálastjóra þann 6. Júní sl. í tilefni af ferð til Argentínu í maí sl.“

Fram kemur í bréfinu að á fundinum hafi verið farið yfir tilefni funda hennar í Argentínu og undirritun fyrrgreindrar viljayfirlýsingar.

Stefán Einar Stefánsson, þáttstjórnandi Spursmála á mbl.is, ræddi þetta við Höllu í Spursmálaþætti í byrjun mánaðar sem vakti mikla athygli. Þá kvaðst Stefán hafa heimildir fyrir því að hún hafi fengið tiltal frá ráðuneytisstjóranum en hún kvaðst ekki vita nákvæmlega um hvað Stefán væri að tala.

Ráðherrann var bekkjasystir Höllu

Halla sagði svo, innt eftir svörum, að hún hefði farið yfir þetta mál og mörg önnur mál með ráðuneytisstjóra.

„Ég fór yfir þetta mál og mörg önn­ur mál, fer ég reglu­lega yfir með ráðuneyt­is­stjóra. Enda er mjög mik­il­vægt að emb­ætt­is­menn séu að vinna með ráðuneyt­is­stjór­um, með öðrum sem koma að þess­um mál­um. En leyfðu mér að segja þér af hverju það er mik­il­vægt að tryggja sam­vinnu milli ólíkra ríkja," sagði Halla í Spursmálum, margspurð um hvort hún hafi fengið tiltal frá ráðuneytisstjóra.

Í fyrrnefndu bréfi kemur fram að ráðuneytisstjóri hafi sérstaklega fundað með Höllu vegna ferðar hennar til Argentínu.

Í þeim þætti kem­ur meðal annars fram að ráðherra Arg­entínu, sem und­ir­ritaði yf­ir­lýs­ing­una fyr­ir hönd heima­lands síns er Cecilia Nicolini. Hún var bekkjar­syst­ir Höllu Hrund­ar við Harvard-há­skóla og út­skrifaðist á sama tíma og hún frá John F. Kennedy School of Government úr sama námi árið 2017.

Fundaði með utanríkisráðherra Argentínu án vitneskju íslenska utanríkisráðuneytisins

Auk þess að skrifa undir viljayfirlýsinguna þá fundaði Halla einnig með utanríkisráðherra Argentínu og orkumálaráðherra Argentínu.

Eins og fram kom í svari utanríkisráðuneytis Íslands við fyrirspurn Stefáns Einars, þáttstjórnanda Spursmála, þá vissi utanríkisráðuneytið ekki af fundi Höllu með utanríkisráðherra Argentínu né hafði aðkomu að því sem fram fór á honum.

„Fund­ur orku­mála­stjóra með ut­an­rík­is­ráðherra Arg­entínu á síðasta ári var ekki á veg­um ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins. Ráðuneytið vissi hvorki af fund­in­um né hafði aðkomu að því sem fram fór á hon­um. Við nán­ari eft­ir­grennsl­an, eft­ir fund­inn, kom í ljós að Orku­stofn­un hafði verið í sam­skipt­um við starfs­fólk sendi­ráðs Íslands í Washington vegna vega­bréfs­árit­ana og sent þeim af­rit af dag­skrá ferðar­inn­ar þegar hún var til­bú­in ör­fá­um dög­um áður,“ segir í svari utanríkisráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert