Halla: Líkti Ólafi Ragnari ekki við Robert Mugabe

Halla Tómasdóttir hafnar því að hún hafi líkt Ólafi Ragnari Grímssyni, þáverandi forseta Íslands við Robert Mugabe, hinn alræmda forseta Simbabve, árið 2016.

Þetta kemur fram í nýjasta viðtali Spursmála þar sem Halla er gestur.

Er hún þar innt eftir því hvað hún hafi átt við með ummælum sem hún lét falla í forsetakosningunum hér á landi 2016. Var það gert í tengslum við þá ákvörðun Ólafs Ragnars að bjóða sig að nýju fram eftir að hafa lýst því yfir að hann hygðist láta af embætti eftir 20 ár í embætti.

Robert Mugabe var forseti Simbabve frá 1987 til 2017.
Robert Mugabe var forseti Simbabve frá 1987 til 2017. mbl.is/AFP

Skipaði sér á bekk með einræðisherrum

Ummælin sem féllu í viðtali við fréttamann Stöðvar 2 voru á þessa leið:

„Ég tel að [ákvörðun Ólafs] muni skerpa línurnar í þessari kosningabaráttu. Þetta er lýðræðislegur réttur hans af því að við erum ekki búin að skýra leikreglurnar og setja mörk á það hversu lengi forseti Íslands má sitja. En ég er óneitanlega ekki stolt af því að sitjandi forseti skuli skipa sér á bekk með einræðisherrum eins og Mugabe.“

Í Spursmálum lýsir Halla því yfir að eðlilegast væri að forsetar Íslands gætu aðeins setið tiltekinn fjölda kjörtímabila, annað hvort tvö til þrjú kjörtímabil, eða að kjörtímabilið væri lengt í 6 ár og að þá væri hámarksseta miðuð við tvö tímabil.

Orðaskipti Höllu við þáttarstjórnanda má sjá í spilaranum hér að ofan.

Viðtalið við hana má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert