Húsbíll fauk út af í Öræfunum

Töluverð umferð er í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þessa stundina.
Töluverð umferð er í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þessa stundina. Ljósmynd/Lögreglan

Gular viðvaranir og leiðinleg veðurspá hafa líklega haft eitthvað að segja um ferðalög innanlands um hvítasunnuhelgina.

Umferð hefur gengið vel og stórslysalaust fyrir sig, að minnsta kosti í þeim lögregluumdæmum sem blaðamaður mbl.is hafði samband við. Þó var eitthvað um umferðarslys á Suðurlandi þar sem húsbíll fauk út af veginum.

Mánudagurinn eins og hver annar sunnudagur

Töluverð umferð er í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þessa stundina, en gengur samt mjög vel, að sögn Hannesar Þórs Guðmundssonar, varðstjóra umferðardeildar.

„Þetta er búið að ganga jafnt og þétt fyrir sig. Ef maður sæi ekki á dagatalinu að það væri hvítasunna þá væri þetta bara eins og hver annar sunnudagur þegar komið er á þennan árstíma. Engin óhöpp eða slys, allavega hjá okkur,“ segir Hannes Þór.

Hann telur að veðurspáin hafi sett strik í reikninginn. „Hún hefur hjálpað svolítið til, það voru örugglega margir sem hættu við út af henni.“

Kvarta ekki þrátt fyrir veðrið 

Jón Valdimarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, tekur undir orð Hannesar. 

„Það er ekkert meiri umferð akkúrat núna heldur en verið hefur. Hugsanlega hefur dregið úr því að fólk sé á ferðinni út af veðurspánni,“ segir Jón.

Hann segir umferðina hafa gengið vel og áfallalaust um helgina. Ekkert fleiri umferðarbrot hafi verið bókuð heldur en hverja aðra helgi á þessum árstíma. 

„Við þurfum ekkert að kvarta þó veðrið hafi kannski ekki alveg verið upp á það besta,“ segir Jón.

Klassíski tappinn í gegnum Selfoss

Garðar Már Garðarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segist ekki hafa orðið var við neitt óeðlilega mikla umferð um hvítasunnuhelgina umfram aðrar helgar.

„Það er alltaf í upphafi allra helga að það verður allt stíflað langleiðina undir Ingólfsfjall. Það er hinn klassíski tappi í gegnum bæinn,“ segir Garðar Már og á við Selfoss.

„Það er blíðskaparveður núna og umferð gengur mjög vel. Við vonum bara að þetta haldist svona út helgina.“

Húsbíll fauk út af

Garðar segir umferðina hafa gengið stórslysalaust í umdæminu um helgina, sérstaklega ef miðað er við veður, sem hann segir hafa verið leiðinlegt í kringum Vík og Kirkjubæjarklaustur.

Alls hafi orðið þrjú umferðarslys síðan á föstudag en engin þeirra séu talin alvarleg. Þeirra á meðal var húsbíll sem fauk út af vegi í Öræfunum í gær.

Sex ökumenn voru stöðvaðir án ökuréttinda, fjórir ölvaðir og tveir sem voru undir áhrifum fíkniefna. 23 voru teknir fyrir of hraðan akstur.

Vorverkin með eftirvagna

Garðar segir að eitthvað hafi þurft að skipta sér af eftirvögnum í umferðinni, eins og oft þurfi að gera á vorin.

„Það var verið að sekta því það vantaði auka spegla til að sjá aftur fyrir og eitthvað með ljósabúnað og fleira,“ segir hann.

Hann segir að helst sé þörf á auka baksýnisspeglum þegar ekið er með stór hjólhýsi í eftirdragi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert